Tíminn líður hratt og senn er Rótarýárið liðið.
Ég vil þakka ykkur, kæru vinir í Rótarý, fyrir samferðina á þessu viðburðarríka ári. Sérstaklega fannst okkur Guðnýju ánægjulegt að heimsækja klúbba landsins, hafa tækifæri til að eiga samtal við rótarýfélaga og kynnast mismunandi siðum og venjum í hverjum klúbbi. Því enginn klúbbur er eins.
Auk hefðbundinna starfa umdæmisstjóra voru nokkur verkefni, sem ég vildi sérstaklega vinna að á starfsárinu og ég kynnti fyrir verðandi forsetum, riturum og gjaldkerum starfsársins 2017-2018 á fræðslumóti í Kópavogi 11. mars 2017 og í heimsóknum mínum til ykkar í haust.
Vildi ég snúa við þeirri þróun að rótarýfélögum hefur farið aðeins fækkandi undan farin ár bæði á Íslandi og öðrum vestrænum löndum. Þetta markmið náðist því rótarýfélögum fjölgaði lítillega á Íslandi á starfsárinu. Einnig mæltist ég til þess að einstakir klúbbar greiddu sem samsvaraði 50 dollara á mann í frjálsum framlögum til góðgerðarmála í Rótarýsjóðinn.