Fréttir frá umdæmisstjóra
Frá umdæmisstjóra
Nú er tekið að hausta. Starf
klúbbanna komið á fulla ferð eftir sumarið og nýir forsetar farnir að fóta sig
og marka starfið, hver með sínum stíl og markmiðum. Rótarýhreyfingin er öflug
hreyfing öflugra félaga og það að nýir forsetar taka við 1. júlí ár hvert þýðir
að ferskir vindar blása stöðugt. Viðtakandi forseti á setu í stjórn sem slíkur
í eitt ár sem tryggir að ákveðin festa helst í starfinu. Það að nýir koma að
stýrinu ár hvert má ekki þýða það að öllu sé umturnað. Nauðsynlegt er að
viðhalda stöðugleikanum og rugga bátnum ekki um of. Hins vegar er það aðeins af
hinu góða að nýr blær kemur á fundarstjórn og ný nálgun á sér stað. Allt
leiðtogastarf kallar á að sá sem gegnir því á hverjum tíma hafi sterka sýn á
starfið, hafi stefnufestu, mildi og mýkt til að bera, þekki söguna og geri
einkunnarorð Rótarý að sínum. Takist þetta þarf ekki að hafa áhyggjur af starfi
Rótarý í þeirri framtíð sem bíður okkar. Nýir félagar munu laðast að og vera tilbúnir
til að taka við fánanum.
Margrét Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri, er komin til starfa á skrifstofunni eftir fæðingarorlof. Við bjóðum Margréti velkomna til starfa á nýjan leik. Opnunartími skrifstofunnar verður óbreyttur, þ.e. á milli kl. 10:00 og 12:00 á virkum dögum
Septembermánuður er mánuður ungu kynslóðarinnar á dagatali Rótarý. Því ber okkur að huga að æskulýðsstarfinu og hvernig við getum stutt við starf Rotaract-klúbbsins okkar. Þar er á ferð öflugur klúbbur efnilegra ungmenna sem vonandi verða virkir félagar þegar fram líða stundir.