Fréttir frá umdæmisstjóra

14.9.2012

Ávarp umdæmisstjóra við setningu Umdæmisþings

Kæru vinir í Rótarý og vinir Rótarý, það er mér mikið gleðiefni að bjóða ykkur öll velkomin til Umdæmisþings íslenska Rótarý umdæmisins, Umdæmis 1360.

Umdæmisþing 2012 - 08Especially I would like to welcome and introduce our foreign guests who honour us by attending the conference. Peter and Inge Bundegaard have travelled all the way to Isafjordur in order to represent Rotary´s International president Sakuji Tanaka and his wife Kyoko. A heartily welcome to you Peter and Inge. Peter has been a Rotarian since 1965 and has served RI as district governor 1979-80, International Assembly discussion leader, committee member and chairman, and RI director 1995-97.Member of The International Polio Plus Committee 2006-2008. He currently serves as the PolioPlus National Advocacy Advisor for Denmark. He was a member of the Trustee for Rotary Foundation 2005-09.

Anette Löwert and her husband Per Höyen will represent the Scandinavian districts. Unfortunately they are not here yet but they will arrive later today. Anette is the DG in District 1460 which covers Fyn, the southernmost part of Jutland and Lithauenia.

Þá vil ég bjóða alla fyrrverandi umdæmisstjóra sem hér eru staddir sérstaklega velkomna og biðja þá um að rísa á fætur.
Í dag vill svo til að Rótarýklúbbur Borgarness á stórafmæli, 60 ár eru liðin frá stofnun hans. Ég flyt félögum klúbbsins mínar bestu heillaóskir af þessu tilefni og bið ykkur að taka undir heillaóskir mínar með öflugu lófataki
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, mun heiðra okkur með nærveru sinni síðar í dag og flytja hátíðarræðu þingsins. Ólafur mun flytja ræðu sína í turnhúsinu í Neðstakaupstað við upphaf fundar í Rótarýklúbbi Ísafjarðar um kl. 19:30.
Íslenskir rótarýfélagar koma nú saman til Umdæmisþings í 67. sinn. Umdæmisþingið er að þessu sinni haldið á Ísafirði og ber Rótarýklúbbur Ísafjarðar allan veg og vanda af því. Þar sem allt líf okkar hér vestra er svo nátengt sjónum höfum við valið umdæmisþinginu yfirskriftina „Harpa hafsins“ og er ætlan okkar að á þinginu verði fjallað um tengsl okkar við hafið í víðasta skilningi. Það er ekki langt síðan að lífsbarátta Íslendinga snerist um að hafa í sig og á. Þá þótti það eftirsóknarvert að búa hér við Ísafjarðardjúp, Djúpið var óþrjótandi matarkista þegar gæftir voru góðar. Eftir því sem afkoma Íslendinga batnaði fóru kröfur okkar að snúast um fleiri lífsgæði en mat og húsaskjól. Skipafloti okkar efldist og hægt var að sækja fisk á miðin frá höfnum sem lágu fjær miðunum en áður. Þetta hafði þær afleiðingar að fólksflótti varð frá hinum dreifðu byggðum í þéttbýlið og höfum við hér fyrir vestan ekki séð fyrir endann á þeim flótta enn. Hafið og gjafir þess eru þó enn ein helsta máttarstoð undir því þjóðfélagi sem við byggjum í dag.

Rótarýklúbbur Ísafjarðar er næst elsti rótarýklúbbur landsins stofnaður 20. október 1937 og fagnar 75 ára afmæli nú í haust. Þetta er í þriðja sinn sem umdæmisstjóri íslenska rótarýumdæmisins kemur úr röðum félaga í Rótarýklúbbi Ísafjarðar. Áður hafa gegnt starfi umdæmisstjóra Kjartan Jóhannsson læknir, 1951-1952, og Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður, 1994-1995.

Markmið starfs okkar innan Rótarýhreyfingarinnar er að efla og örva þjónustuhugsjónina sem grundvöll heiðarlegs starfs með einkunnarorðunum „Þjónusta ofar eigin hag“. Þessu markmiði náum við með því að efla og örva:

  1. Þróun kunningsskapar, svo að hann veiti tækifæri til þjónustu.
  2. Háleitar siðgæðiskröfur í viðskiptum og starfi, viðurkenningu á gildi allra nytsamra starfa og viðurkenningu þess, að sá, sem innir gott starf af hendi í starfsgrein sinni, sé samfélaginu þarfur þegn.
  3. Viðleitni hvers rótarýfélaga til að breyta samkvæmt þjónustuhugsjóninni í einkalífi sínu, starfi og félagsmálum.
  4. Alþjóðlegan skilning, velvild og frið með alheims félagsskap manna í öllum starfsgreinum, sem sameinast í þjónustuhugsjóninni.
  5. Samstarf með ungmennum í þeim tilgangi að þroska leiðtogahæfni þeirra, þátttöku þeirra í samfélagsverkefnum og auka skilning milli þjóða með ungmennaskiptum.

Við rótarýfélagar höfum leiðarljós sem kallað er fjórpróf og notum það til að vega og meta ætlanir okkar og áform.

• Er það satt?
• Er það drengilegt?
• Eykur það velvild og vinarhug?
• Er það öllum til góðs?

Ef okkur ber gæfu til þess að starfa í anda fjórprófsins erum við sannarlega að leggja okkar að mörkum á leið að bættu samfélagi.

Þegar ég velti fyrir mér af hverju einstaklingar bindast böndum og sameinast í Rótarýklúbbum kemst ég að þeirri niðurstöðu að þeir geri þetta í því skini að auka eigin lífsgæði. Þessi niðurstaða kann að virðast í mótsögn við leiðarljós okkar „Þjónusta ofar eigin hag“ en við nánari skoðun má sjá að svo er alls ekki. Hver kannast ekki við þá þá vellíðunartilfinningu sem fyllir okkur þegar okkur verður ljóst að einhverjar athafnir okkar hafa breytt lífi annarrar manneskju á betri veg. Eða með öðrum orðum þá hjálpum við náunganum vegna okkar eigin innri hvata og þarfa. Við höfum einnig gagn af veru okkar í Rótarýklúbbi með því að kynnast ólíkum starfsgreinum, manneskjum og viðhorfum þannig að víðsýni okkar eykst. Síðast en ekki síst viljum við að það sé gaman á Rótarýfundum. Við verðum að gæta þess að þrátt fyrir nauðsynlega formfestu séu fundir okkar skemmtilegir og kynni við aðra klúbbfélaga ánægjuleg þannig að rótarýfélagi haldi ávallt til fundar með tilhlökkun og eftirvæntingu í huga. Og oft bindast menn ævilöngum vináttuböndum eftir að hafa kynnst í Rótarýklúbbi. Gaman saman hljómar í mínum eyrum sem áhugavert slagorð fyrir Rótarý.

Flestir kannast við hvernig Bernhard Shaw svaraði spurningunni „Where is Rotary going? „Rotary is going to lunch“ svaraði Shaw. Ýmsir hafa túlkað þetta svar á þann veg að aðalmálið í Rótarý sé maturinn. Við skulum skoða þetta svar frá aðeins öðru sjónarhorni.

Hvar ræðir fjölskyldan málin? Hvar segja fjölskyldumeðlimir frá upplifun sinni? Hvar skiptast fjölskyldumeðlimir á skoðunum? Hvar er heilagasti tími fjölskyldunnar? Svar við öllum þessum spurningum er við matarborðið. Þetta gildir einnig um Rótarý það er ekki maturinn sem er aðalatriðið heldur það sem gerist kringum matarborðið þar er hinn sanni Rótarý andi á ferð.
Kjörorð forseta alþjóðahreyfingar Rótarý, Sakuji Tanaka, er „Peace through service“ eða á íslensku „Þjónusta í þágu friðar“. Þetta kjörorð er mun víðtækara en svo að það nái einungis til vopnaðra átaka. Þetta kjörorð á mjög vel við á Íslandi nú um stundir þar sem þjóðin skiptist í fylkingar í ýmsum málum og sundurlyndi og sundurþykkja ríkir. Við íslenskir rótarýfélagar getum með þjónustuhugsjónina að vopni lagt okkar að mörkum til að sættir náist. Ef við höfum þetta kjörorð „Þjónusta í þágu friðar“ávallt í huga er það jafnvíst og að dropinn holar steininn að við munum ná nokkrum árangri.

Í ritinu „Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára“ er fjallað um sögu Rótarýklúbbs Ísafjarðar og þar segir m.a.:
„Rótarýfélagar spyrja oft sjálfa sig, hvað lítill klúbbur geti lagt af mörkum til alþjóðaþjónustu. Í fljótu bragði virðist ekki vera um margt að ræða, en það hefir þráfaldlega komið í ljós, að litli klúbburinn getur haft sín áhrif, ef rétt tækifæri eru hagnýtt.
Í maí 1952 færðu Íslendingar fiskveiði-landhelgi sína út í 4 sjómílur. Útfærslunni var mótmælt af þeim þjóðum, sem stundað höfðu veiðar á svæðinu, en engum mótað gerðum var þó beitt gegn Íslendingum af hálfu stjórnvalda þessara landa. Hins vegar ákváðu brezkir togaraeigendur og fiskkaupmenn að setja bann á löndun íslenzks fisks í Bretlandi, og brezk blöð héldu upp áróðri, sem var mjög andsnúinn hagsmunum Íslendinga. Fyrirsjáanlegt var, að ráðstafanir þessar gætu haft alvarleg áhrif á efnahag Íslendinga, en á þessum tíma seldist um fjórðungur botnfiskafla Íslendinga á brezkum markaði.
Miklar umræður urðu um þetta mál á fundi Rótarýklúbbs Ísafjarðar. Í framhaldi af þeim ritaði forseti klúbbsins langt og vinsamlegt bréf til 24 rótarýklúbba í brezkum hafnarbæjum og skýrði málstað okkar. Benti hann m. a. á, að Íslendingum væru einnig bannaðar veiðar innan 4 sjómílna lögsögunnar á sama hátt og hinum erlendu þjóðum. Þetta bréf varð auðvitað ekki til að leysa þessa viðkvæmu deilu en það varð til þess að rótarýfélagar okkar í 24 brezkum hafnarbæjum sáu málið í öðru ljósi en áður. Hlaut forseti klúbbsins verðugt lof fyrir framtak sitt og tilraun sína til að glæða skilning meðal þjóða.“

Þetta litla dæmi sýnir okkur að það þarf ekki mikið til að glæða skilning manna á milli og þar geta einstaklingar og smærri klúbbar beitt áhrifum sínum með góðum árangri.

Rótarýhreyfingin leitast við að undirbúa forystumenn sína vel fyrir þau verkefni sem þeim eru falin. Síðustu tvö ár hef ég setið í umdæmisráði fyrst sem tilnefndur og síðan sem verðandi umdæmisstjóri og einnig höfum við hjónin sótt undirbúningsnámskeið í Noregi og San Diego í Californíu. Allt þetta hefur verið nauðsynlegur undirbúningur fyrir starf umdæmisstjóra, en ekkert hefur verið mér mikilvægara en að geta leitað í vísdómsbrunna fyrrverandi umdæmisstjóra. Ég þakka sérstaklega umdæmisleiðbeinanda og fyrrverandi umdæmisstjóra Margréti Friðriksdóttur fyrir gátlistana sem hún útbjó fyrir störf tilnefnds umdæmisstjóra, verðandi umdæmisstjóra og umdæmisstjóra, þeir hafa komið og munu koma að góðu gagni.

Starfsskyldur umdæmisstjóra eru allnokkrar en með góðum stuðningi umdæmisráðs og ykkar allra kæru Rótarýfélagar geng ég til þessa verks án nokkurs kvíða. Í starf umdæmisstjóra hafa í gegnum tíðina valist einstaklingar með góða leiðtogahæfileika. Þeir hafa rutt brautina og mun ég reyna að feta í slóð þeirra og gleðjast ef mér tekst að stinga tánum í hælför þeirra.

Á þessu starfsári mun ég setja eftirfarandi verkefni í forgang.

1. Gera Rótarýhreyfinguna og hennar góðu verk sýnilegri almenningi. Það er full ástæða til að stíga fram og gera opinberlega grein fyrir samfélagsverkefnum Rótarýhreyfingarinnar og á hverju starf hennar grundvallast. Ég hvet ykkur öll til að halda á lofti hinu góða starfi Rótarýklúbbanna og láta það spyrjast út hversu gaman og fróðlegt það er að mæta á klúbbfundi

2. Virkari þátttaka klúbba í verkefnum og fjölgun þeirra í okkar eigin samfélagi. Við skulum horfa til þess hvar er brýnt að taka til hendinni í okkar næsta umhverfi, getum við t.d. gert eitthvað til þess að létta öldruðum, börnum eða æskufólki lífið? Verkefnin geta einnig verið í öðrum löndum og öðrum heimsálfum. Lykillin að þessu er öflugri stuðningur við Rótarýsjóðinn sem síðan skilar fé til frekari verkefni. Öll leggjum við eitthvað af mörkum til líknarmála í gegnum hin ýmsu samtök. Rótarýsjóðurinn hefur hlutfallslega litla yfirbyggingu og því fara nánast öll framlög til sjóðsins til líknarmála. Miklar breytingar verða á styrkjakerfi sjóðsins á næsta starfsári og munu þá a.m.k. 50% framlaganna skila sér aftur til verkefna umdæmisins og klúbbanna sem við getum m.a. nýtt til verkefna í nærumhverfi okkar. Ég legg til að við öll Rótarýfélagar leggjum eitthvað af mörkum til Rótarýsjóðsins á þessu starfsári, hver eftir efnum og aðstæðum en aðalatriðið er að allir séu með.Það liggur fyrir að á starfsárinu 2012-2013 munu heildarframlög íslenska umdæmisins fara yfir milljón dala markið. Stærsta verkefni Rótarýsjóðsins er „Polio Plus“ verkefnið þar sem Rótarýsjóðurinn fór í forystu verkefnis sem hefur það að markmiði að útrýma lömunarveiki í heiminum. Þetta verkefni hefur staðið í rúm 20 ár og nú sjáum við hilla undir að þessu marki verði náð.

3. Fjölga félögum í klúbbnum okkar. Markmið alheimshreyfingarinnar er að það fjölgi um 3% á ári sem þýðir að við þurfum að auka félagafjöldann um ca. 40. Ef okkur tekst vel til í verkefnunum hér að ofan og berum gæfu til að hafa klúbbfundina fræðandi og skemmtilega, þá þurfum við ekki að vera í hlutverki veiðimannsins sem er með net sín úti til að fjölga rótarýfélögum, gott orðspor hreyfingarinnar mun leiða til þess að það verður aukin eftirspurn eftir að fá að ganga til liðs við Rótarý.

Að svo mæltu óska ég þess að þetta 67. Umdæmisþing Rótarýumdæmisins á Íslandi verði hvoru tveggja í senn fróðlegt og skemmtilegt og segi það sett.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning