Fréttir frá umdæmisstjóra

27.9.2015

Öflugt klúbbstarf

Rótarýhreyfingin er alþjóðleg mannúðarhreyfing og þess skulum við ávallt minnast þegar við fjöllum um Rótarý. Hin algildu einkunnarorð Rótarý „Þjónusta ofar eigin hag“ eiga því alls staðar við og ber ávallt að hafa í huga, hvort heldur er í klúbbstarfi eða á alþjóðavettvangi, hvort sem er í leik eða starfi. Rótarýfélagar eiga ávallt að vera viðbúnir að leggja lið án þess að huga að eigin ávinningi.
Það eru klúbbarnir vítt og breitt um heiminn sem eru stoðir og staðfesta Rótarý og án þeirra væri rótarýhreyfingin ekki til. Öflugt klúbbstarf er því grunnurinn að afli rótarýhreyfingarinnar bæði á heimavettvangi og á heimsvísu.
Grunnur að öflugu klúbbstarfi er að leggja rækt við og efla innra starf klúbbsins og tengsl klúbbfélaga; bjóða fram áhugaverða og öfluga klúbbdagskrá og virkja félaga til sameiginlegra verkefna. Til þess að svo megi verða þurfa allir félagar klúbbsins að vera virkir og mæta reglulega á fundi klúbbsins og taka þátt í starfi hans.
Ekkert er eins letjandi fyrir klúbbstarfið og léleg mæting félaganna og fátt meira örvandi en að sjá nær alla klúbbfélaga á hverjum fundi. Hvort sem félagar hafa mætingarskyldu eða ekki ætti það að vera forgangsmál að mæta á klúbbfundi og taka þátt í starfi klúbbsins. Ég bið alla rótarýfélaga að hafa þetta í huga og minnast í þessu sambandi einkunnarorða Rótarý „Þjónusta ofar eigin hag“

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning