Fjölmenni á umdæmisþingi
Umdæmisþingið var haldið laugardaginn 5. júní. Góð mæting var á þingið og tókst það mjög vel. Um morgunin fóru fram hefðbundin atriði á umdæmisþingum, kveðjur voru fluttar og látinna minnst. Ung kona, Ólöf Magnúsdóttir, fjórði friðarstyrkþegi umdæmisins, árið 2005, flutti erindi um störf sín fyrir styrkveitinguna og eftir. Einnig sagði hún okkur frá náminu sem hún stundaði í Ástralíu. GSE-hópurinn (GSE starfsskiptahópur) frá Kansas var kynntur og fræddu þau okkur um fylkið sitt og dagleg störf og áhugamál.
Eftir hádegi var þemað siðferði, annars vegar, og fjölmiðlar, hins vegar. Anna Stefánsdóttir, forseti Rkl Borga, gerði grein fyrir viðhorfum sínum varðandi á fjórprófið og sr. Hjálmar Jónsson, félagi í Rkl Reykjavíkur, hugleiddi með okkur siðferðisboðun kirkjunnar og gildi fjórprófsins. Guðni Ágústsson fyrrv. ráðherra ræddi frjálst félagastarf í fortíð og nútíð. Hann lagði áherslu á hið sterka hlutverk óháðra félagasamtaka í að þroska og móta einstaklinginn og þann grunn er væri sem rauður þráður í starfi allra slíkra félaga, þ.e. að kunna að vinna saman, virða einstaklinginn og með því að skapa gott og sterkt siðferði með hverjum og einum. Þessir ,,gömlu" félagar af Alþingi, sr. Hjálmar og Guðni, fóru sannarlega á kostum. Þeim tókst einkar vel að tengja alvarleg viðfangsefni og léttleika. Þeir köstuðu fram stökum og og gerðu létt grín hvor af öðrum. Það var notalegt á tímum þar sem siðferði og samskipti manna eru oft með neikvæðum formerkjum, að skynja hvernig einstaklingar með ólíkar pólitískar skoðanir höfðu þróað með sér vinskap sem hvorki mölur né ryð fá grandað.
Fjölmiðlar voru næst til umræðu. Guðni Gíslason, Rkl. Hafnafjarðar, kynnti nýsamþykkta fjölmiðlastefnu Rótarý á Íslandi. Síðasti fyrirlesarinn, Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, ræddi fjölmiðla nútímans. Hann fjallaði um hlutverk fjölmiðla við breyttar þjóðfélagsaðstæður, hvernig þeim bæri að flytja réttar og nýjar fréttir og vera hlutlausir í nálgun sinni. Hann lagði áherslu á að skörp skil eigi að vera á milli ritstjórnarstefnu og fréttaflutnings, og benti á aukinn fréttaflutning á netinu og að prentmiðlarnir ættu í vök að verjast. Fréttamiðlar myndu þó ætíð lifa en væru núna í mikilli gerjun. Að lokinni ræðu sinni svaraði Karl nokkrum fyrirspurnum. Góður og líflegur fyrirlestur sem var endapunkturinn á góðu umdæmisþingi.
Eins og fyrr segir var mæting mjög góð á þessum fallega sumardegi. Vegna breytinga á skipulagi umdæmisþinga var ekki skyldumæting á þetta þing, en mætingin reyndist ekkert síðri en á þing þar sem skyldumæting hefur gilt. Það sýnir okkur hve virkt og lifandi starfið er í Rótarý á Íslandi þessa dagana. Félögum fjölgar, klúbbarnir eru virkir og forystumenn þeirra sýna í verki að þeir virða og þykir vænt um Rótarýhreyfinguna með því að fjölmenna á umdæmisþing.