Fréttir frá umdæmisstjóra

5.8.2009

Ávarp nýs umdæmisstjóra í ágúst 2009

Undirritaður tók við embætti umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi þann 1. júlí. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að leiða Rótarýumdæmið á Íslandi. Rótarýhreyfingin er virt hreyfing. Á það bæði við á Íslandi sem um allan heim. Störf hreyfingarinnar á sviði hjálparstarfs, ungmennastarfs og styrkja til ýmissa verkefna er einstakt. Þetta er starf sem er unnið af hugsjón en ekki með lúðrablæstri lítillar innistæðu. Hver og einn sem velst til forystu í samtökum sem þessum verður að vera trúr þeirri hugsjón sem Rótarýhreyfingin er byggð á, þjónustuhugsjóninni. Þar af leiðir að hlutverk umdæmisstjóra er að þjóna félögum og klúbbum. Vera til staðar ef vandamál koma upp, aðstoða og leiða. Muna að hann er einn hlekkur í sterkri keðju rótarýfélaga. Ég vona að mér takist að vinna í þessum anda.

Umdæmisstjóra er ætlað að skrifa reglulega mánaðarbréf. Þetta er mitt fyrsta mánaðarbréf. Mánaðarbréfinu er ætlað að flytja helstu fréttir af starfinu, innanlands sem utan. Heimasíðan gerir það mögulegt, ef senda þarf áríðandi fréttir, að senda þær jafnóðum beint til félaga. Þetta er nútíminn og lifandi hreyfing á að aðlaga sig að þeim möguleikum sem tæknin gefur hverju sinni.

Ég vona að nýtt rótarýár verði okkur gjöfult og vænti þess að samstarf umdæmisstjóra við ykkur félaganna verði þannig að enginn skuggi falli þar á.

Með rótarýkveðjum
Sveinn H. Skúlason
umdæmisstjóri 2009-2010

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning