Fréttir frá umdæmisstjóra

12.9.2008

Ný heimasíða umdæmisins tekin í notkun

Ný heimasíða umdæmisins var opnuð þann 1. september sl., en hún er mjög aðgengileg og  auðveld í notkun.

Skiljanlega hafa þó komið fram einstaka hnökrar, eins og við er að búast, en að sögn formanns Vefsíðunefndar, Ólafs Ólafssonar, Rkl. Grafarvogs, er gert ráð fyrir að ,,slípun" síðunnar geti tekið tvo til þrjá mánuði. Fróðlegt er að geta þess að nýja heimasíðan okkar með tengdum gagnagrunni markar viss tímamót í gagnaumsjón félaga og funda í félagasamtökum á Íslandi, þ.e.a.s. allar upplýsingar tengjast í einn miðlægan gagnagrunn sem gerir hverjum klúbbi kleift að vinna beint með viðeigandi tengingar.

Haldið var sérstakt námskeið fyrir klúbbritara þann 30. ágúst sl. um notkun heimasíðunnar, enda henni ætlað m.a. að auðvelda störf klúbbstjórna við miðlun og meðferð gagna.  Mæting var þokkalega góð á námskeiðið en þó hefur verið ákveðið að halda vefsíðufund á Akureyri þann 18. september nk. fyrir félaga úr nærhéruðum sem komust ekki 30. ágúst.  Guðni Gíslason í Vefsíðunefnd og félagi í Rkl. Hafnarfjarðar, mun funda þar með riturum og öðrum áhugasömum um notkun vefsíðunnar og eru menn eindregið hvattir til þess að nýta tækifærið. 

Jafnframt er áréttuð hvatning til klúbbforseta og ritara að senda Ritnefnd fréttir úr starfinu til birtingar á heimasíðunni. Ritnefndarmenn eru Geir A. Guðsteinsson, Rkl. Kópavogs, og Vigdís Stefánsdóttir, Rkl. Grafarvogs. ritnefnd@rotary.is

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning