Fréttir frá umdæmisstjóra
  • Margrét Friðriksdóttir

16.8.2010

Frá umdæmisstjóra

Þegar þetta mánaðarbréf er skrifað eru flestir rótarýklúbbar að hefja starf að loknu sumarleyfi.  Sú breyting hefur átt sér stað, eftir að heimilað var að fella niður  þrjá fundi samfellt, að starf rótarýklúbba liggur að mestu niðri í júlímánuði. Alþjóðahreyfingin hefur brugðist við þessu m.a. með því að færa áhersluefni/þema júlímánaðar sem var ólæsi yfir í marsmánuð og því er ekki lengur neitt þema í þessum mánuði. Ég vona að sumarið hafi verið rótarýfélögum um land allt gefandi því framundan er spennandi starfsár þar sem allir þurfa að taka þátt og láta gott af sér leiða.

Ég vil byrja á því að bjóða  nýja forseta og ritara velkomna til starfa og senda þeim bestu óskir um velfarnað.  Ykkur hefur verið sýndur sá sómi af félögunum að vera valin til forystu fyrir klúbbstarfið  á starfsárinu. Framundan er annasamt ár sem veitir ykkur ómetanlegt tækifæri til að kynnast fjölbreytileika rótarýstarfsins  og  stuðla að því að efla það góða starf sem þegar er unnið í klúbbunum. Á ykkar herðum hvílir því sú ábyrgð að sjá til þess að að rekstur klúbbsins og framvinda verkefna gangi sem best.

Það er hlutverk umdæmisstjóra og skrifstofu umdæmisins að aðstoða ykkur eftir fremsta megni við þetta verkefni og hikið ekki við að hafa samband með netpósti eða síma. Skristofa umdæmisins er staðsett að Suðurlandsbraut 54 (Bláu húsin) og er opin alla virka daga frá kl. 10.00-12.00. Skrifstofustjóri umdæmisins er Margrét Sigurjónsdóttir.

Kæru rótarýfélagar

Ég hlakka til að starfa með ykkur á þessu rótarýári sem er nýhafið.  Ég er þess fullviss að samstarfið verður gott og ánægjulegt. Ég óska ykkur enn og aftur velfarnaðar í starfi og vona að árið verið öllum Rótarýfélögum farsælt.

Margrét Friðriksdóttir
umdæmisstjóri 2010-2011
Umdæmi 1360


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning