Fréttir frá umdæmisstjóra
  • Herdís Anna Jónasdóttir

28.1.2010

Hátíðartónleikar Rótarý

Herdís Anna Jónasdóttir, sópran og Jóhann Már Nardeau trompetleikari fengu styrk

Hinir árlegu Hátíðartónleikar Rótarý voru haldnir þann 8. janúar í Salnum, Tónlistahúsi Kópavogs. Fyrstu Stórtónleikarnir voru haldnir 4. janúar 1997, að frumkvæði Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Þeir hafa verið haldnir árlega síðan, en árið 2005, á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar, var fyrsti styrkurinn veittur. Fyrsti styrkþeginn var Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari. Það setti því sérstakan svip á tónleikana þessu sinni að Víkingur lék fyrir okkur ásamt vini sínum, Ran Dank, píanóleikara frá Ísrael. Þessir tveir píanósnillingar hrifu tónlistagesti svo algjörlega með sér að engin orð ná að lýsa þeim hughrifum sem voru til staðar þegar kom að hléi.

Í fjarveru Jónasar Ingimundarsonar, Rótarýfélaga okkar og vinar, kynnti Víkingur Heiðar verkin sem hann og Ran Dank léku. Víkingur gerði það á sama ljúfa og létta mátan og Jónas hefur haft svo einstakt lag á. Það hefur verið viss heimilis og vinarbragur yfir tónleikunum hingað til, ekki síst fyrir þann notalega og afslappaða blæ sem svifið hefur yfir vötnum. Sú stemmning var til staðar á þessum Stórtónleikum sem áður.

Þetta voru 6. Hátíðartónleikarnir þar sem veittur var styrkur úr Tónlistasjóði Rótarýumdæmisins, en 8 framúrskarandi ungir listamenn höfðu verið styrktir til frekara náms. Að þessu sinni voru tveir ungir og efnilegir tónlistamenn styrktir. Það voru Herdís Anna Jónasdóttir, sópran og Jóhann Már Nardeau trompetleikari. 20 sóttu um styrk, allt framúrskarandi listamenn. Segja má að Herdís Anna og Jóhann Már hafi verið fremst meðal jafningja.

Jóhann Már var erlendis og gat því ekki tekið við styrknum, en móðir hans gerði það fyrir hans hönd. Var það vel við hæfi, við sem erum foreldri þekkjum þá tilfinningu að sigrar barna okkar eru einnig okkar sigrar.

Herdís Anna söng nokkur lög með Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur við píanóið. Mikil hrifning ríkti yfir frábærri frammistöðu hinnar ungu söngkonu.

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning