Hátíðartónleikar Rótarý
Herdís Anna Jónasdóttir, sópran og Jóhann Már Nardeau trompetleikari fengu styrk
Í fjarveru Jónasar Ingimundarsonar, Rótarýfélaga okkar og vinar, kynnti Víkingur Heiðar verkin sem hann og Ran Dank léku. Víkingur gerði það á sama ljúfa og létta mátan og Jónas hefur haft svo einstakt lag á. Það hefur verið viss heimilis og vinarbragur yfir tónleikunum hingað til, ekki síst fyrir þann notalega og afslappaða blæ sem svifið hefur yfir vötnum. Sú stemmning var til staðar á þessum Stórtónleikum sem áður.
Þetta voru 6. Hátíðartónleikarnir þar sem veittur var styrkur úr Tónlistasjóði Rótarýumdæmisins, en 8 framúrskarandi ungir listamenn höfðu verið styrktir til frekara náms. Að þessu sinni voru tveir ungir og efnilegir tónlistamenn styrktir. Það voru Herdís Anna Jónasdóttir, sópran og Jóhann Már Nardeau trompetleikari. 20 sóttu um styrk, allt framúrskarandi listamenn. Segja má að Herdís Anna og Jóhann Már hafi verið fremst meðal jafningja.
Jóhann Már var erlendis og gat því ekki tekið við styrknum, en móðir hans gerði það fyrir hans hönd. Var það vel við hæfi, við sem erum foreldri þekkjum þá tilfinningu að sigrar barna okkar eru einnig okkar sigrar.
Herdís Anna söng nokkur lög með Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur við píanóið. Mikil hrifning ríkti yfir frábærri frammistöðu hinnar ungu söngkonu.