Fréttir frá umdæmisstjóra

13.11.2009

Heimsóknir til klúbbanna

Umdæmisstjóri heimsækir klúbbanna um þessar mundir og fundar með stjórn og formönnum nefnda.

Umdæmisstjóri heimsótti 5 klúbba í mánuðinum. Fleiri heimsóknir höfðu verið ráðgerðar, en vegna ýmissa ástæðna þurfti að flytja fundi til og færðust þeir þá yfir á nóvember. Þegar undirritaður hóf yfirreiðina til að heimsækja klúbbana, var nokkur beygur til staðar.

"Þetta væri ákveðin skylda, hugsuð til þess að klúbbarnir fengju þá tilfinningu að Rótarý væri annt um hvern og einn klúbb og til að stytta þráðinn á milli yfirstjórnar og grasrótar. Það varð nú svo, strax eftir fyrstu heimsókn, að kvíði breyttist í spennu fyrir næsta fundi og skyldan breyttist í gleði. Það er sérstök upplifun að koma á fund þar sem áður hafði einungis verið nafn rótarýklúbbs í mínum huga og þar sem félagarnir voru félagatal með nöfn á prenti. Fara síðan af fundi þar sem klúbburinn hafði öðlast lifandi mynd í huganum, fundarsalur og fundarmenning og þar sem félagarnir voru orðnir að andlitum, lifandi persónur sem gaman og gefandi var að eiga stund með. Þessi tilfinning fer ekki eftir stærð klúbbanna, fundurinn hjá minnsta klúbbnum, Rkl Eyjafjarðar er mér ekkert síður minnisstæður en fundurinn hjá stærsta klúbbnum, Rkl Reykjavíkur. Í mínum huga, eftir að hafa heimsótt 19 klúbba þegar þessi orð eru skrifuð, eru það ómælanleg forréttindi að fá að vera í hlutverki umdæmisstjóra í eitt ár. Hvað þennan þátt starfsins varðar mættu árin vera fleiri og það sama á við fjölda klúbba.

Í nóvember mun ég heimsækja 13 klúbba. Ég veit af reynslu fyrri heimsókna að skemmtilegt tímabil er framundan. Í mánuðinum mun ég ljúka ferðum mínum út á land. Það er í raun nokkuð annar blær á heimsóknum til kúbbanna úti á landi eða til klúbbanna á Reykjavíkursvæðinu. Maður finnur mjög glöggt að klúbbarnir lifa og starfa í öðru umhverfi, minni hraða og í meiri fjarlægt frá fyrirlesurum, en þeir klúbbar sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir ekki að starfið sé neitt síðra, en annar blær er yfir. Það er líka einstakt tækifæri sem felst í því að klúbbarnir eru ekki allir steyptir í sama mót. Það er líka óhætt að segja að enginn klúbbur á höfuðborgarsvæðinu er eins. Í þessu felst styrkur."


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning