Starfshópaskipti – Ástralía – auglýst eftir umsækjendum
Auglýst er eftir þátttakendum og eru klúbbar hvattir til að benda á efnilega einstaklinga. Starfshópaskipti eru ætluð einstaklingum með góða menntun og a.m.k. tveggja ára starfsreynslu. Viðkomandi má ekki hafa nein tengsl inn í rótarýhreyfinguna, hvorki vera félagi eða tengjast rótarýfélaga nánum fjölskylduböndum því hugmyndin er að færa rótarýhugsjónina út til sem flestra. Fjórir einstaklingar fara og er ferðin þeim að kostnaðarlausu. Að auki fer reyndur rótarýfélagi með sem fararstjóri og tekur ferðin um 4 vikur. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni rotary.is.
Nýlega var fjölgað í nefndinni enda að mörgu að hyggja við skipulag á slíkum ferðum og tóku þau Halldóra Matthíasdóttir Rkl. Görðum og Helgi Sigurðsson Rkl. Selfoss sæti í nefndinni. Birna Bjarnadóttir Rkl. Borgum Kópavogi er formaður nefndarinnar.