Rótarýhugsjónin lifir
Gleðilegt sumar ágætu rótarýfélagar.
Það gengur á ýmsu þessa dagana á okkar kæra landi. Eldgos í Eyjafjallajökli , umræðan um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lengi mætti telja. Ég finn hve mikil áhrif gosið hefur haft í Evrópu þegar ég er þessa dagana að skiptast á tölvupóstum við erlenda gesti sem koma á umdæmisþingið þann 5. júní. Menn eru að velta fyrir sér hvort það sé öruggt að af umdæmisisþinginu verði og spyrja einnig, hvað með stóra gosið? Í þessu samhengi er gaman að geta þess að umdæmisstjóra hefur borist tölvupóstur frá erlendum klúbbum þar sem boðin er fram aðstoð. Þar er rótarýhugsjónin svo sannanlega lifandi og menn tilbúnir til að rétta fram hönd til hjálpar. Hvað eldgosið varðar held ég að óhætt sé að segja að við lifum í lifandi landi og reynslan hefur kennt okkur að taka því sem að höndum ber.
Ég ætla ekki að hafa mörg orð um skýrsluna, en vil þó segja að það er ekki ósjaldan sem FJÓRPRÓFIÐ hefur komið upp í huga minn í umræðu síðustu daga.
Er það satt og rétt ?
Er það drengilegt ?
Eykur það velvild og vinarhug ?
Er það öllum til góðs ?
Ég ítreka óskir um gott sumar með vissu um betri tíð og blóm í haga.
Með kærri Rótarýkveðju til allra rótarýfélaga.
Sveinn H. Skúlason umdæmisstjóri.