Öflugt starf æskulýðsnefndar umdæmisins
Æskulýðsnefndin undir stjórn Hönnu Maríu Siggeirsdóttur Rkl. Reykjavík-Miðbær hefur staðið í ströngu síðustu vikurnar við að undirbúa komu næsta skiptinemahóps en 6 klúbbar munu taka á móti skiptinema í haust. Þá munu fimm íslensk ungmenni halda utan til skiptinemadvalar á vegum Rótarý.
Þá bárust nefndinni hátt í 100 tilboð um þátttöku í sumarbúðum í á þriðja tug landa víða um heim. Sumarbúðirnar eru skiplagðar af rótarýfélögum og ætlaðar ungmennum á aldrinum 16-24 ára. Oftast er um tveggja vikna dvöl að ræða og greiða þátttakendur fargjald á staðinn en annar kostnaður er greiddur af gestgjafanum. Sjö íslensk ungmenni hafa skráð sig til þátttöku í sumar. Klara Lísa Hervaldsdóttir Rkl. Görðum og nefndarmaður í æskulýðsnefnd hefur umsjón með sumarbúðaverkefninu fyrir okkar hönd.
Æskulýðsmál er mikilvægur þáttur í starfi Rótarýhreyfingarinnar og eins og áður hefur komið fram var ákveðið að auka vægi þessa mikla starfs á síðasta löggjafarþingi Rótarýhreyfingarinnar með því að gera ungmennaþjónustuna að fimmtu þjónustuleiðinni.