Fréttir frá umdæmisstjóra

22.7.2013

Lagabreytingar

Guðmundur Björnsson fulltrúi okkar í Löggjafaráði RI sat þing ráðsins í Chicago 21. - 26. apríl s.l., en þingið kemur saman á þriggja ára fresti. Fyrir þinginu lágu 200 tillögur 151 tillaga um lagabreytingar og 49 ályktanir. Af þessum 200 tillögum voru 56, lagatillögur samþykktar og 7 ályktanir og auk þess var þremur lagatillögum vísað til stjórnar RI. Lagabreytingarnar tóku gildi 1. júlí s.l., nema annað komi fram um gildistöku.
Guðmundur hefur tekið saman skýrslu um störf löggjafaþingsins og helstu breytingar á lögum RI. Rótarýfélagar eru hvattir til að kynna sér skýrslu Guðmundar, sérstaklega kafla 2. Rótarýklúbbar. Athugið að þessar breytingar geta haft áhrif á ákvæði í gildandi sérlögum klúbba.

sjá alla skýrsluna hér

SKÝRSLA UM STÖRF LÖGGJAFARRÁÐS RI (CoL) Í CHICAGO 21. - 26. apríl 2013.

Tilgangurinn með þessari skýrslu er að kynna íslenskum rótarýfélögum starf löggjafarráðs RI í Chicago 21. - 26. apríl 2013.

1.    Almennt.
Löggjafarþingið kemur saman á þriggja ára fresti. Hvert umdæmi getur sent einn fulltrúa og hafa þeir einir atkvæðisrétt. Nú mættu 528 fulltrúar en umdæmin eru 532 Auk þeirra sátu þingið með málfrelsi en án atkvæðisréttar stjórn RI, stjórn Rótarýsjóðsins, framkvæmdastjóri RI og nokkrir fyrrverandi forsetar RI auk allmargra áheyrnarfulltrúa.
Fyrir þinginu lágu 200 tillögur (151 tillaga um lagabreytingar (enactments) og 49 ályktanir (resolutions)) svo það var ljóst að verkefnið var umfangsmikið. Af þessum 200 tillögum voru 56 lagatillögur samþykktar og 7 ályktanir og auk þess var þremur lagatillögum vísað til stjórnar RI. Aðrar tillögur voru felldar (alls 82) eða þær dregnar til baka (alls 56) áður en þær komu til umræðu.
Fyrir löggjafarþinginu 2010 lágu 219 tillögur og 337 árið 2007 þannig að tillögum hefur fækkað undanfarin ár.  
Lagabreytingarnar munu taka gildi 1. júlí n.k. nema annað komi fram um gildistöku.
Ályktanirnar eru sendar til stjórnar RI til frekari umfjöllunar og afgreiðslu og ber henni að tilkynna öllum umdæmisstjórum niðurstöður sínar innan árs.
Tillögur voru sendar til fulltrúa um níu mánuðum fyrir þingið svo þeir gætu kynnt sér þær og mótað sína afstöðu. Unnt er að koma á framfæri yfirlýsingum um stuðning við eða andstöðu gegn tillögum fyrir ákveðinn tímafrest og eru þessar yfirlýsingar sendar öllum fulltrúum. Þetta gerði umdæmið okkar fyrir þingið 2010 þar sem mótmælt var breytingum á heimildum stjórnar RI til að sameina lítil umdæmi.
Ýmsar tillögur lágu fyrir um breytingar í frjálsræðisátt þar sem stefnt var að meira sjálfstæði klúbba til að byggja upp sitt starf og setja sér reglur um mætingar, mætingaskyldu og tilhögun frífunda en þó haldið fast í hina vikulegu fundi. Stjórn RI lagði fram róttækustu tillögurnar að mínu mati. Það voru mikil vonbrigði þegar stjórnin dró þessar tillögur til baka nokkru fyrir þingið. Yfirlýsingar frá fjölmörgum klúbbum lýstu andstöðu gegn þessum tillögum og álíka tillögum sem hefur örugglega átt þátt í því að stjórnin dró tillögurnar tilbaka. Meira hefur þó þurft til að mínu mati því það hlýtur að þurfa mikinn þrýsting og mjög kröftug mótmæli til að alþjóðastjórnin dragi tillögur til baka.
Almennt ríkir mikil íhaldssemi í hreyfingunni sem kemur vel í ljós í atkvæðagreiðslum á löggjafarþingum. Slík íhaldssemi hefur bæði neikvæðar hliðar svo sem andstöðu við framsæknar en góðar breytingar sem þessar og jákvæðar hliðar eins og fram kemur hér á eftir.
Það kom mér óþægilega á óvart hve margar lagatillögur sem miðuðu að því að draga úr ýmsum réttinum lítilla og/eða ungra umdæma og klúbba voru lagðar fyrir þingið. Tillögum um skert réttindi til að taka þátt í ýmsum atkvæðagreiðslum eða um takmarkaðan atkvæðisrétt sem og tillaga um að hækka lágmarksgreiðslu klúbba til RI og miða við minnst 15 félaga sem nú miðast við 10 félaga. Því var það mjög ánægjulegt að finna hina sterkum andstöðu á þinginu gegn slíkum tillögum sem allar voru felldar en samþykkt tillaga um að fella alveg niður lágmarksgjald klúbba til RI.
Löggjafarþingið hófst á sunnudegi með undirbúningsfundi þar sem m.a. er farið í gegnum þær reglur sem gilda um þingstörfin sem síðan hófust á mánudeginum og stóðu til hádegis á föstudag. Fundir hófust yfirleitt kl. 9:00 og stóðu til kl. 17:30 með matar- og kaffihléum. Fundir eru formfastir og fundarstjóri stjórnar þingstörfum með harðri hendi en þó svífur léttleiki yfir og stutt er í gamansemi og hlátur og umræður líflegar og almennt málefnalegar. Haldið er stíft áfram allan daginn og aldrei dauð stund.
Hér á eftir verður fjallað um þýðingarmestu ákvarðanir ráðsins, nokkrar tillögur sem voru felldar eða dregnar til baka og að lokum um áframhaldandi vinnu með niðurstöður þingsins. Lagabreytingar voru flestar breytingar á sérlögum RI og á grundvallalögum klúbbanna. Fáar breytingar voru samþykktar á grundvallarlögum RI enda þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breyta þeim. Ef ekkert er tekið fram hér á eftir er um að ræða breytingu á sérlögum RI.

2.    Rótarýklúbbarnir.
a.    Hálfsárskýrslur klúbba til RI.
Samþykkt var tillaga um breytingu á sérlögum RI um að hálfsársskýrslurnar undirritaðar af forseta og ritara skuli sýndar félögum áður en þær eru sendar til RI (með 311/á móti 174).
Tillaga þessi kom frá Indlandi og ástæðan mun vera sú að klúbbar þar hafa orðið uppvísir að því að útbúa tvær skýrslur, aðra fyrir klúbbinn, sem er grunnur að innheimtu félagsgjalda og hina fyrir RI með færri uppgefnum félögum og er hún þá grunnur fyrir greiðslum til RI. Látið var að því liggja að mismunurinn færi í „einhverja vasa“ svo undarlegt sem það nú er.

b.    Embættismenn klúbba og stjórnarseta.
Samþykktar voru tvær tillögur um breytingar á grundvallarlögum klúbba varðandi hvaða embættismenn ættu eða gætu/mættu verið í stjórnum klúbba.
1)  Skv. fyrri tillögunni skal ritari nú sitja í stjórn klúbbsins, áður var það valkvætt.
2.  Í síðari tillögunni eru gerðar breytingar á hverjir skuli sitja í klúbbstjórn og hverjir geti setið þar samkvæmt ákvörðun klúbbsins.
Þessar breytingar geta haft áhrif á ákvæði í gildandi sérlögum klúbba um klúbbstjórnir.

c.    Hæfi klúbbforseta.
Samþykkt var breyting á grundvallarlögum klúbba um að félagi sé ekki kjörgengur til embættis klúbbforseta nema hafa verið í klúbbnum í a.m.k. eitt ár (með293/á móti 184).

d.    Inntökugjald.
Í grundvallarlögum klúbbanna eru ákvæði um að félagar skuli greiða inntökugjald og árgjald skv. því sem segir í sérlögum hvers klúbbs. Í viðkomandi grein (grein 11) eru taldir upp félagar er ekki skulu greiða inntökugjald og nú var samþykkt að bæta í þann hóp fyrrverandi klúbbfélaga sem gengur aftur í klúbbinn (með 330/á móti 158).
Eins og fram kemur hér að framan þá skal innheimta inntökugjald skv. ákvæðum í sérlögum klúbbs. Ég vil almennt túlka lög hreyfingarinnar þannig að ef eitthvað er ekki bannað þá sé það leyfilegt. Ég lít því svo á að klúbbar geti ákveðið að innheimta ekki inntökugjald eða segja í sérlögum að inntökugjald sé 0 kr. og þessi lagabreyting hefur engin áhrif á það. Klúbbar sem ekki innheimta inntökugjald þurfa því ekki að breyta sínum sérlögum en klúbbar sem innheimta slíkt gjald þurfa að skoða sinn lagatexta með hliðsjón af þessari breytingu.


e.    Lágmarksgreiðslur klúbba til RI.
Samþykkt var sú breyting á sérlögum RI að framvegis er ekkert lágmark á árgjaldagreiðslum til RI heldur miðast þær einungis við fjölda félaga (með 264/á móti 244).

f.    Mætingar á klúbbfundi, fjarvera og  mætingaskylda.
Samþykktar voru fjórar tillögur um breytingar á ákvæðum um fundarsókn, fjarveru og mætingaskyldu í grundvallarlögum rótarýklúbba:
1) Félagar geta bætt upp fundarmætingu með þátttöku í þjónustuverkefnum eða öðrum viðburðum á vegum klúbbsins.
2) Hafi félaga verið veitt undanþágu frá fundarsókn í allt að 12 mánuði vegna veikinda er heimilt framlengja þessa undanþágu ef veikindi vara lengur.
3) Heimilt verður að veita félaga undanþágu frá mætingaskyldu vegna aldurs þó hann sé ekki orðinn 65 ára ef summa af aldri og félagsaðild er 85 eða meiri.
4) Hafi félaga verið veitt undanþága frá mætingaskyldu þá skal hvorki hann né fjarvera hans tekin með í útreikning á mætingaprósentu. Hins vegar gildir áfram að ef hann mætir þá reiknast mætingin með í mætingarprósentu.
Breytingar þessar geta haft áhrif á sérlög klúbba.

g.    Fylgiklúbbar (satellite clubs).
Samþykkt var breyting á sérlögum RI og grundvallarlögum klúbba um að klúbbum verði heimilt að stofna fylgiklúbba sem væru grunnur að sjálfstæðum nýjum klúbbum meðan verið væri að „safna“ nægilega mörgum félögum til að geta stofnað formlega nýjan klúbb. Félagar í fylgiklúbbi eru félagar í móðurklúbbnum þar til hinn nýi klúbbur hefur verður stofnaður (með 370/á móti 130).
Breyting þessi getur haft áhrif á sérlög klúbba.

h.    Flutningur félaga milli klúbba.
Samþykktar voru eftirfarandi tvær breytingar á grundvallarlögum klúbba um flutning félaga milli klúbba. Sú fyrri nær einnig til sérlaga RI:
1) Félögum sem flytjast á milli klúbba eða hafa áður verið félagar í öðrum klúbbi ber að framvísa meðmælabréfi frá sínum gamla klúbbi (með 260/ á móti 255).
Ég vil líta svo á að hér sé um heimildarákvæði að ræða sem klúbbstjórn geti nýtt telji hún þörf á. Breytingin hefur ekki áhrif á sérlög klúbbanna.
2) Klúbbur sem félagi flyst frá skal staðfesta skriflega að félaginn sé skuldlaus við klúbbinn. Hafi staðfesting ekki borist innan 30 daga frá því hennar er óskað skal litið svo á að félaginn sé skuldlaus við klúbbinn (með 403/á móti 108).
Ég vil líta svo á að hér sé einnig um heimildarákvæði að ræða sem klúbbstjórn geti nýtt telji hún þörf á. Breytingin hefur ekki áhrif á sérlög klúbbanna.

i.    Félagsaðild og heiðursfélagar.
Samþykktar voru tvær breytingar á grundvallarlögum RI sem snerta klúbbana:
1) Í grein 2 í kafla 5 í grundvallarlögum RI er fjallað um hverjir geti orðið rótarýfélagar. Bætt var við ákvæði um að fólk sem hætt hafi tímabundið á vinnumarkaði eða aldrei unnið utan heimilis til að geta sinnt uppeldi barna sinna eða aðstoðað sambýlismann/-konu (partner) við hans/hennar störf geti framvegis orðið rótarýfélagar (með 359/ á móti 165).
Að mínu mati er þetta góð og löngu tímabær breyting á lögum hreyfingarinnar þó svo æ færri sinni nú heimilisstörfum eingöngu. Ánægjulega er hve mikinn stuðning þessi tillaga fékk. Í þessari tillögu sem og fleiri þar sem fjallað var um maka var notað orðið „spouse“. Nokkrar umræður urðu um það og samþykkt í öllum tilvikum að breyta því í „partner“.
2) Heiðursfélögum er framvegis heimilt að bera merki Rótarý (með 448/á móti 59).


frh.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning