Fréttir frá umdæmisstjóra

26.2.2010

Breytt fyrirkomulag umdæmisþinga

Umdæmisráð hefur samþykkt þá breytingu að Umdæmisþingin færist frá vorinu yfir á haustin og að formótið tengist PETsinu, sem er fræðsluþing verðandi forseta, yfirleitt haldið í mars. Þessi breyting byrjar strax að virka og PETSmótið sem verður haldið þann 20. mars n.k. verður því bæði forsetafræðsla og formót, með þátttöku bæði forseta og ritara. Formótið sem annars hefði átt að halda í tengslum við mitt Umdæmisþing þann 5. júní fellur því niður. Eftirfarandi rök eru fyrir þessum breytingum:

Umdæmisþing

Umdæmisþingin hafa verið haldin í lok tímabils umdæmisstjóra. Þau hafa í raun verið fræðsluþing, með völdum fyrirlesurum og aðalfundur. Í tengslum við umdæmisþingið hefur keðjan, embættistákn umdæmisstjóra verið afhent viðtakandi umdæmisstjóra, þó í raun sé eftir einn mánuður af tímabili umdæmisstjóra. Víða erlendis eru umdæmisþingin á haustin og marka upphaf nýs tímabils, þar sem nýr umdæmisstjóri hittir liðið sitt, leggur línurnar og hvetur til dáða. Umdæmisstjórakeðjan er síðan afhent viðtakandi umdæmisstjóra í klúbbi hans á hátíðarfundi við upphaf tímabilsins.

PETs-forsetafræðsla

Það eru nokkur ár síðan PETsið var tekið upp. Á það eru boðaðir verðandi forsetar og eins og nafnið (President Elect Training Seminar) ber með sér fer þar fram forsetafræðsla. Verðandi forsetar hafa síðan mætt til umdæmisþings ásamt verðandi riturum og þar hefur verið veitt ýmiskonar viðbótarfræðsla um verkefni og skyldur sem bíða á komandi tímabili. Þeir sem farið hafa á PETsin hin síðustu ár og síðan á formótið hefur fundist að um nokkra endurtekningu sé að ræða, frá PETsi og síðan á formóti.

Af þessum ástæðum, til að einfalda alla framkvæmd og gera vinnubrögðin markvissari hefur verið ákveðið að forsetar og ritarar mæti saman á PETSIÐ-forsetafræðsluna og formótið. Samhliða þessu hefur verið ákveðið að umdæmisþingin verði haldin í september/október. Um verði að ræða einn og hálfur dagur, þar sem hálfi dagurinn verði í raun aðalfundur umdæmisins.

Vegna þessara breytinga og til að ná upp réttum takti þarf að halda umdæmisþing í vor. Umdæmisþingið í vor verður umdæmisþing sitjandi forseta og umdæmisþingið í haust verður umdæmisþing viðtakandi umdæmisstjóra og síðan rúllar þetta áfram. Mitt umdæmisþing verður haldið þann 5. júní og verður einn dagur. Aðalfundurinn verður haldinn á haustþinginu, þ.e. skýrsla fráfarandi umdæmisstjóra og reikningar lagðir fram. Í fyrra fyrirkomulagi hefðu reikningar míns tímabils verið lagðir fram á umdæmisþingi vorið 2011.

Ég vona og trúi að þetta nýja fyrirkomulag muni reynast umdæminu vel.

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning