Fréttir frá umdæmisstjóra
  • Rótarýfundur á umdæmisþingi - 27

17.9.2012

Vel heppnað umdæmisþing

67. umdæmisþingi Rótarý á Íslandi lauk sl. laugardag. Þingið fór vel fram og var vel að þinghaldinu staðið en félagar í Rótarýklúbbi Ísafjarðar báru veg og vanda af því. Setning þingsins var í Ísafjarðarkirkju þar sem látinni rótarýfélaga var minnst. Stúlknakór Tónlistarskólans á Ísafirði og Karlakórinn Ernir söng auk þess sem Gunnlaugur Jónasson fræddi þinggesti um sögu kirkjunnar.

Umdæmisþing 2012 - 12Peter Bundgaard, fulltrúi heimsforseta, ávarpaði gesti og tilnefndur umdæmisstjóri 2014-2015, Guðbjörg Alfreðsdóttir, Rkl. Görðum var kynntur.

Um kvöldið var hátíðarrótarýfundur haldinn í glæsilegri umgjörð í Turnhúsinu í Neðstakaupstað. Þar skemmti Frach fjölskyldan og forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson hélt kjarnmikla ræðu. Auk fulltrúa heimsforseta var Annetta Løwert fulltrúi norrænu rótarýumdæmanna. Var fundurinn hinn skemmtilegasti og ekki spillti glæsilegt fiskihlaðborðið.

Þinghaldið á laugardag var í Edinborgarhúsinu og hófst með ávarpi umdæmisstjóra og Anette Løwert. Þá flutti Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða mjög áhugavert erindi um haf- og strandveiðistjórnun sem kennd er við skólann. Rúnar Óli Karlsson kynnti með áhugaverðum hætti starfsemi Borea Adventures, siglingar og ferðalög á norðurslóðum og til að kóróna þema þingsins „Harpa hafsins“ söng Guðrún Jónsdóttir óperusöngkona valin atriði úr söngleikjum og óperum sem tengjast hafinu.

Rótarýfundur á umdæmisþingi - 07Hefðbundin þingstörf tóku við með skýrslum og framlagningu reikninga og fjárhagsáætlunar. Rótarýsjóðurinn var kynntur sem og ungmennaþjónustan.

Á meðan þinghald var ferðuðust makar um fjöll og firnindi með góðri leiðsögn og skoðuðu m.a. gamla verbúð í Ósvör og rækjuverksmiðju Kampa á Ísafirði þar sem boðið var upp á rækjukokteil og hvítvín.

Þingin lauk með hátíðarkvöldverði í sal frímúrara í Hafnarhúsinu en veislustjóri var sr. Magnús Erlingsson. Jóhannes Kristjánsson eftirherma kitlaði hláturtaugarnar og Maksymilian Haraldur Frach heillað þinggesti enn á ný með fiðluleik sínum við undirleik Iwonu Frach.

Tvö ísfirsk fyrirtæki fengu viðurkenningu Rótarýhreyfingarinnar

Umdæmisþing 2012 - 69Ísfirsku fyrirtækin Fossadalur og Skútusiglingar hlutu viðurkenningu Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi á umdæmisþingi samtakanna sem haldið var á Ísafirði 14.-15. september sl.  Auk viðurkenningarinnar fengu fyrirtækin 500 þús. kr. styrk hvort.

Fossadalur ehf. fékk viðurkenninguna fyrir frumkvöðlastarf í iðnaði en fyrirtækið hefur hannað, þróað og markaðssett fluguveiðihjól með byltingarkenndu bremsukerfi. Ný vörulína fyrirtækisins, Invictus, keppir við innflutning og skapar hátæknistörf og útflutningstekjur. Jón Páll Hreinsson markaðsstjóri Fossadals tók við verðlaununum f.h. Steingríms Einarssonar stofnanda Fossadals.

Umdæmisþing 2012 - 23Skútusiglingar ehf. fékk viðurkenninguna fyrir frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu með markaðssetningu á skútusiglingum um Vestfirði og austurströnd Grænlands á eigin skútu. Markaðssetning fyrirtækisins fer fram í nafni Borea Adventures og vörumerkið North Explores er hluti þess og undir þeim merkjum er boðið upp á dagsferðir og lengri kajakferðir. Markaðssetning fyrirtækisins á afþreyingu til erlendra markhópa er farin að bera árangur og skila útflutningstekjum. Ásgerður Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Skútusiglinga og Rúnar Óli Karlsson stofnandi Skútusiglinga tóku við verðlaununum.

Umdæmisþing 2012 - 17 Umdæmisþing 2012 - 51 Umdæmisþing 2012 - 39

Sungið var m.a. minni kvenna og karla og góðu kvöldi lauk með dansi við undirleik Sunnu Karenar Einarsdóttur og félaga.

Ísfirðingar gáfu út blaðið Harpa hafsins í tilefni þingsins og fletta má blaðinu hér: Harpa hafsins

Myndir frá þinginu má finna á heimasíðu Rótarý: Myndasafn umdæmisþings 2012
og einnig á Facebook síðu umdæmisins, www.facebook.is/rotary.island : Myndasafn umdæmisþings 2012


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning