Frá heimsóknum í klúbbana
Ég vildi gjarnan heimsækja þá klúbba sem ég heimsótti fyrst aftur. Í fyrstu heimsóknunum er maður að fóta sig og síðan finnur maður taktinn. Sólveig kona mín hafði ekki síðri ánægju af því að vera með mér á klúbbfundum. Hún náði að koma með mér á nær alla fundina utan Reykjavíkur og á marga fundi í Reykjavík og á stór-Reykjavíkursvæðinu. Til marks um hve mikla ánægju hún hafði af fundunum er, að þegar við vorum á leið suður frá fundi okkar á Neskaupstað, varð henni að orði, „verst að það skuli ekki vera klúbbur á Hornafirði“. Þessi orð lýsa því hve mikla ánægju hún hafði af því að koma á fundina, njóta frábærrar gestrisni og hitta hresst og skemmtilegt fólk.