Á fundi Borga, 23. mars 2017, var haldin lestrarkeppni undir stjórn Þórðar Helgasonar. Lesið var úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ, auk ljóðs eftir Steinunni Sigurðardóttur og sjálfvalið ljóð. Upplesturinn var afar skemmtilegur og margt snilldarljóðið flutt.
Prófdómarar voru Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir og Baldur Sigurðsson. Var tekið tillit til þess hve vel var lesið í öllum umferðum, litið upp til að ná sambandi við áheyrendur og lesið skýrt. Fyrstu verðlaun hlaut Rannveig Guðmundsdóttir. Aukaverðlaun hlaut Svava fyrir upplesturinn á En hvað það var skrýtið.
Lesa meiraÁ fundinum 18. febrúar fór fram formleg inntaka tveggja nýrra félaga sem mælt hefur verið með og kynnt hafa sér klúbbinn að undanförnu. Þetta eru þau Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og Sigfús Kristjánsson sóknarprestur í Hjallakirkju. (Úr fundargerð - ljósmynd Marteinn Sigurgeirsson).
Fundurinn var í umsjá Menningarmálanefndar. Formaður hennar er Svava Bernharðsdóttir og kynnti Össur Geirsson fyrirlesarann Freyju Gunnlaugsdóttur tónlistarmann. Freyja hélt erindi sem hún nefndi „Átök ríkis og Reykjavíkur um tónlistarnám“ en þau átök hafa verið áberandi í fréttum fjölmiðlanna að undanförnu. Þess má geta að Freyja hefur nýlega lokið meistararitgerð sem ber heitið: Framhaldsmenntun í tónlist á Íslandi: Þróun, framtíð og stefna og má lesa hana hér: http://hdl.handle.net/1946/21212. Í erindi Freyju kom fram hve flókið þetta mál er og á sér langa sögu. Mikill niðurskurður í fjárframlögum til þeirra skóla sem mennta framhaldsnemendur í tónlist átti sér stað eftir hrunið og er nú deilt um hvort ríkið eða sveitafélögin eigi að bera kostnaðinn af þeirri menntun.
Farin var gönguferð í Búrfellsgjá í Heiðmörk kl.17.00 þann dag. Um var að ræða sannkallaða fjölskylduferð þar sem um 60 manns á öllum aldri gengu saman í einstöku blíðviðri. Guðjón Magnússon leiðsögumaður og klúbbfélagi okkar stýrði göngunni. Hann upplýsti göngumenn um jarðfræði svæðisins og vatnsbúskap. Búrfellið sem við gengum að og sum uppá er eldstöð með fallegri og heillegri hrauntröð, Búrfellsgjá, sem er um 3,5 km löng. Frá Búrfelli hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands í dag. Innan svæðisins eru fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Allir skiluðu sér heilir til baka eftir tveggja tíma gæðastund í íslenskri náttúru.
Lesa meiraHugmyndir að stofnun Styrktarsjóðs Rótarýklúbbsins Borgir