Nýir félagar gengnir til liðs við Borg-ara.
Fjölgun varð í klúbbnum þegar nýr félagi bættist við hópinn undir lok maímánaðar og annar um miðjan júní.
Fundurinn 24. maí var í umsjón starfsþjónustunefndar þar sem formaður er Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
Alexander Þórisson sagði frá minnisverðri máltíð sem ævinlega er snædd að sama tíma að ári í félagsskap fyrrum fótboltafélaga í Breiðabliki sem fara saman í árlega veiðiferð. Þar er elduð kjötsúpa sem endist í fjóra daga.
Aðalefni fundarins var skýrsla um heimsóknir í aðra klúbba, sem skipulögð var af starfsþjónustunefnd í haust. Guðlaug Rakel, formaður nefndarinnar rifjaði upp skipulagið og kallaði síðan til fararstjóra eða aðra sem voru í hverjum hóp og bað um stutta skýrslu. Móttökur voru alls staðar góðar og fjölbreytni greinileg í skipulagi funda.
Nýr félagi var tekinn í klúbbinn, Sigurður Konráðsson. Sigurður er SAP ráðgjafi. Jónína Þ. Stefánsdóttir formaður félagavalsnefndar flutti inngangsorð og síðan kynnti Gunnsteinn Sigurðsson menntun og starfsferil Sigurðar sem síðan bætti sjálfur við persónulegri kynningu. Inntaka fór fram með hefðbundnum hætti.
Á fundi klúbbsins þann 14. júní var tekinn inn annar nýr félagi, Auður Kristinsdóttir sem kom úr Rótarýklúbbnum Straumi í Hafnarfirði. Jónína, formaður félagavalsnefndar flutti inngang og síðan kynnti Auður sig sjálf. Forseti las síðan hefðbundinn texta og bauð Auði velkomna og gat þess að markmiðum starfsársins um nýja félaga væri þar með náð.