Fréttir

22.6.2015

Verðlaunahrútar

Forseti setti fund 11. júní  og greindi frá því að átakinu "Vörpum ljósi á Rótarý og Landpsítalann“ er að ljúka og ljósin eru komin til landsins.

 Í þriggja mínútna erindi sagði Marteinn Sigurgeirsson frá því að hann hefði fyrir nokkrum árum stofnað tvo saumaklúbba karla eða smíðaklíkur. Annar hópurinn fer reglulega í minigolf og keppir um Martini-bikarinn og endar síðan í grilli og bjór, sem ekki er minnst um vert. Hinn hópurinn hittist á áramótum og spáir í spilin og að liðnum tólf mánuðum er ljóst hver var spámaður liðins árs. 

 Grímur Hákonarson var ræðumaður dagsins, margverðlaunaður kvikmyndaleikstjóri og þá ekki síst fyrir síðasta afrek sitt, kvikmyndina Hrútar. Grímur sagðist hafa  sterk tengsl í strjálbýlið og hefði alltaf haft gaman af sögum úr sveitinni. Komið hefði upp hugmynd um að gera mynd um bræður í sveit, sem ekki töluðust við í 40 ár þó þeir byggju á sömu torfunni. Í myndinni væri ekki bara þunglyndi, heldur líka heilmikill húmor. Hann sýndi síðan nokkra stutta kafla úr myndinni við góðar undirtektir og kemur ekki á óvart að Hrútarnir fara nú sigurför víða um heim.