Friðarstyrkir og frumkvöðlastarf
Tveir síðustu fundir klúbbsins hafa innihaldið fræðslu að
venju til félagsmanna. Þann 1. september var fundurinn í umsjón Rótarýsjóðs- og rótarýfræðslunefndar, en formaður hennar er Margrét Friðriksdóttir. Fyrirlesari var Guðmundur G. Haraldsson og fjallaði hann um 10 friðarstyrki til Rótarý á Íslandi. Guðmundur G. Haraldsson er prófessor við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Hann er efnafræðingur og deildarforseti raunvísindadeildar HÍ ásamt því að vera formaður námstyrkja- og friðarstyrkjanefndar Rótarý á Íslandi. Guðmundur sagði frá friðarstyrkjum Rótarý sem árlega eru veittir allt að 60 umsækjendum frá umdæmum rótarýhreyfingarinnar.
Styrkirnir hafa verið veittir árlega í 10 ár og hefur íslenskur umsækjandi hlotið styrk öll árin sem er einstakt. Guðmundur gerði síðan stuttlega grein fyrir styrkþegunum sem eru allt konur, hvar þær stunduðu nám og hvaða störfum þær gegna nú. Allar hafa þær staðið sig með mikilli prýði og er óhætt að vera stoltur af þessum árangri Íslendinga. Nánari upplýsingar um styrkina má finna á heimasíðu Rotary International, www.rotary.org.
Emilía Ásta Júlíusdóttir sagði frá minnisverðri máltíð og talaði um glænýjan
fisk sem hún vandist á Akranesi í æsku. Þessar minningar lifnuðu við í
Tjöruhúsinu á Ísafirði þegar hún borðaði þar pönnusteiktan glænýjan fisk.
Fundur sem haldinn var þann 8. september var í umsjón
ungmennanefndar en formaður þar er Svava Bernharðsdóttir. Össur Geirsson kynnti fyrirlesara dagsins, Lindu Margréti Sigfúsdóttur, tónlistarkennara. Hún sagði frá störfum sínum í tónlistarkennslu á ýmsum skólastigum, sem síðan þróaðist yfir í gerð námsefnis fyrir 3ja til 8 ár börn. Hún stofnaði fyrirtækið Höfum gaman ehf, sem hefur þróað námsefnið og m.a. gefið út tvo námsefnispakka sem tengjast tónverkunum Pétur og úlfurinn og Karnival dýranna. Námsefnið miðar að því að kenna börnum tónlist í gegnum leiki sem börnin hafa gaman af. Jafnframt sinnir hún tónlistarkennslu á leikskólanum Kópasteini og þar gefst tækifæri til að prófa nýtt námsefni. Linda Margrét tengdi frumkvöðlahugsun sína uppeldinu en hún ólst upp í Skagafirði í stórum systkinahópi.
Stefán Björnsson sagði frá minnisverðri máltíð, sem var sushi sem hann bragðaði í fyrsta sinn með hálfum huga en heillaðist alveg og er nú einlægur aðdáandi þessarar matargerðar.