Fréttir
  • michelle

2.4.2012

Magnaður mars að venju

Marsfundir klúbbsins hafa verið fjölbreyttir og skemmtilegir.  Einn þeirra var t.d. í formi listmunauppboðs.

 22. mars.

Fundurinn 22. mars sem var í umsjá Rótarýsjóðs- og fræðslunefndar var óhefðbundinn.  Haldið var listmunauppboð til styrktar Rótarýsjóðnum og voru öll verkin eftir félaga í Borgum og gefin af höfundum.   Alls voru boðnir upp 20 munir, málverk, ljósmyndir, geisladiskar, mynddiskar og bækur. Allir munirnir seldust og verður andvirðið greitt í Rótarýsjóðinn eftir að lögbundnum gjöldum af uppboðinu hefur verið skilað.uppbod
 
15. mars

 Fundurinn 15. mars var í umsjón kynningar- og ritnefndar en fyrirlesarar voru þau Tryggvi Pálsson umdæmisstjóri og Michele Watley frá Kansas City í Bandaríkjunum, ambassadorial styrkþegi Rótarý í námi í Hollandi.
Tryggvi Pálsson kynnti fyrirlesarann.  Michele sagði fyrst stuttlega frá sjálfri sér en hún er alin upp af einstæðri móður 6 barna.  Hún er menntuð í stjórnmálum og almannatengslum og hefur unnið fyrir frambjóðendur í kosningum í Bandaríkjunum, þ.á.m. fyrir forsetaframboð Obama núverandi forseta Bandaríkjanna. Hún ræddi síðan um skipulag kosningabaráttu Obama og möguleika hans á endurkjöri í kosningunum haustið 2012. Baráttan var skipulögð sérstaklega fyrir mismunandi þjóðfélagshópa og áhersla var m.a. lögð á að virkja fólk af afrískum uppruna og fá það til að kjósa. Sú viðleitni bar mikinn árangur og kosningaþátttaka þessa hóps var mun meiri en í fyrri kosningum og um 95% kusu Obama.  Michele ræddi einnig um baráttu þessa hóps fyrir kosningarétti en sá réttur fékkst ekki fyrr en 1965 og þá með verulegum hindrunum sem komu í veg fyrir að fólk gæti notað kosningaréttinn. Hún taldi að Obama hefði töluverða möguleika á endurkjöri en margir óvissuþættir gætu þó haft áhrif á niðurstöðuna s.s. þróun efnahags- og utanríkismála fram að kosningum. 
 

Jóna Guðbjörg hélt 3ja mínútna erindi um minnisverða máltíð og rifjaði upp gönguferð um Hornstrandir og Drangajökul. Flýta þurfti göngu á jökulinn vegna veðurútlits og voru göngumenn nokkuð þrekaðir eftir þá ferð og kjötsúpa sem framreidd var að kvöldi var langþráð og afar minnisstæð.
 

8. mars

Fundurinn 8. mars var í umsjón ungmennanefndar.  Tómas Jónsson sérkennslufulltrú hjá Kópavogsbæ var fyrirlesari dagsins.  Tómas fjallaði um skipulag þjónustu við grunnskólanemendur með sérþarfir hjá Kópavogsbæ. Nú eru 9 grunnskólar í Kópavogi með yfir 4000 nemendur og þrír starfsmenn eru í grunnskóladeild á menntasvið hjá bænum. Fylgt er þeirri stefnu sem mótuð er í lögum og reglugerðum sem er skóli án aðgreiningar og að allir nemendur eiga rétt á námi við hæfi í sínum heimaskóla. Tómas rakti síðan umfang sérkennslu en sú þjónusta hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum og fjöldi kennslustunda í sérkennslu samsvarar kennslustundum í meðalskóla.  

Eyvindur Albertsson sagði frá minnisverðum máltíðum og byrjaði á sveitadvöl í Álftaverinu þar sem hann dvaldi hjá afa sínum og ömmu. Hann ræddi samt aðallega um samhengi víns og matar og hversu ánægjulegt er að þegar vínið passar vel við máltíðina. Hann rakti reynslu af mismunandi úrvali og þjónustu varðandi vín á veitingahúsum og benti á að menn skyldu drekka góð vín því lífið er of stutt til að drekka léleg vín.
 
1. mars.

Fundurinn 1. mars  var í umsjón starfsþjónustunefndar. Kristján H. Ragnarsson flutti starfsgreinaerindi þar sem hann kynnti atvinnugrein sína sem er sjúkraþjálfun. Hann rakti sögu starfsgreinarinnar sem á upphaf sitt í Svíþjóð á 18. öld. Fyrsta félag hér á landi var stofnað árið 1940 en Félag sjúkraþjálfara sem nú starfar var stofnað 1962. Námsbraut í sjúkraþjálfun var sett á stofn við læknadeild HÍ árið 1976. Hann lagði áherslu á að sjúkraþjálfun snýst um fólk og námið er samsett af líffæra- og lífeðlisfræði annars vegar og sál- og félagsfræði hins vegar. Þörf á sjúkraþjálfun fer vaxandi með aldri fólks og þegar meðalaldur fer hækkandi þurfa fleiri á þjónustunni að halda. Auk þess eykst þörfin þegar legutími sjúklinga á sjúkrahúsum verður sífellt styttri. Fyrirtæki Kristjáns er Sjúkraþjálfun Kópavogs sem hefur starfað frá 1980 og er elsta sjálfstæða stofa landsins.  


Svava Bernharðsdóttir sagði frá minnisverðri máltíð í afar sérstakri veislu þar sem kom saman fólk frá mörgum löndum. Bornir voru fram margir réttir en nöfn þeirra voru dulkóðuð og gestum var ætlað að velja röð réttanna án þess að vita hvað um væri að ræða. Þannig fengu menn mismunandi rétti sitt á hvað á víxl og auk þess pössuðu áhöldin engan veginn við réttina þar sem menn gátu fengið gaffal með súpunni og annað eftir því. Úr þessu varð hin undarlegasta veisla og mönnum var ekki alltaf jafnskemmt yfir því sem fram var borið.