Ævintýri og Alþingi
Á fundi 16. apríl var þess minnst að 15 ár eru liðin frá stofnun klúbbsins, 13. apríl árið 2000, og var fundurinn númer 663 frá stofnun klúbbsins. Í tilefni afmælisins voru tilbrigði í morgunmatnum með beikoni, sem skolað var niður með freyðivíni.
Guðrún Guðmundsdóttir sagði í þriggja mínútna erindi frá því er hún gerðist au pair stúlka í Bandaríkjunum. Við komuna þangað lenti hún í margra klukkustunda yfirheyrslum og var síðan send heim til Íslands aftur þar sem hún hafði ekki réttu stimplana í vegabréfinu. Þá leitaði hún til utanríkisráðherra, Hornfirðingsins og Framsóknarmannsins Halldórs Ásgrímssonar. Þremur vikum síðar var hún aftur komin upp í flugvél og við tók eitt skemmtilegasta árið í lífi hennar, þökk sé réttum samböndum á Íslandi.
Jón Gunnarsson, félagi í Borgum og formaður atvinnunefndar Alþingis, flutti erindi dagsins og rakti helstu verkefni nefndarinnar á vorþingi. Greinilega nóg að gera á þeim bænum og ekki útséð hvernig málum reiðir af. Meðal þess sem Jón nefndi voru makríl- og veiðigjaldafrumvörp, náttúrupassi eða aðrar leiðir til gjaldtöku í ferðaþjónustu og orkufrekur iðnaður og rammáætlun svo nokkur dæmi séu tekin.