Fréttir

25.3.2013

Janúar dagskrá

Fundir voru áhugaverðir í janúar sem endranær

Fyrsti fundur ársins 2013 var haldinn 3. janúar og var hann í umsjón ungmennanefndar.  Fyrirlesarinn forfallaðist og var Bjarki Sveinbjörnsson fenginn til að sýna myndir
frá göngu sinni á Hornströndum sumarið 2011 og spilaði viðtal við einn íbúa Hornvíkur til áratuga, Arnór Stígsson sem nú býr á Ísafirði, en hann fæddist í Hornvík árið 1922. 

Fundurinn þann 10. janúar 2013 var í umsjón Kynningar- og ritnefndar en formaður hennar er Margrét K. Gunnarsdóttir. Fyrirlesari dagsins var Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrv. borgarstjóri og fjallaði hún um fangelsismál á Íslandi. Steinunn fór stöðu mála, sagði sögu þeirra og sýndi myndir og teikningar af fangelsinu sem reist verður á Hólmsheiði. 

 Fundurinn 17. janúar 2013 var í umsjón Golfnefndar, en formaður hennar er Sigurrós Þorgrímsdóttir. Fyrirlesari dagsins var Guðmundur Oddsson, formaður - Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Kom fram í máli Guðmundar að klúbburinn er margmiljóna fyrirtæki sem skuldar engum neitt, er með tvo holótta velli, um 60 hektara alls, sem um 100 manns standa á biðlista eftir að fylla með hvítum kúlum. Enginn íslenskur golfklúbbur á eins marga íslandsmeistara, né eins fallega, og er helsta markmið klúbbsins að geta byggt samkomusal fyrir starfsmenn ríkisspítalana sem greiðslu fyrir að fá að slá kúlur á lóðnni þeirra í Garðabæ. Hefur klúbburinn m.a. í þeim tilgangi malbikað gangstéttir og gróðursett tré til að trygga öryggi þeirra er lóðina nálgast. Þá ítrekaði hann að fólk á Rotaryaldri ætti sterka möguleika á því að komast fram fyrir þessa 100 í biðröðinni.

Fundurinn 24. janúar 2013 var í umsjón Alþjóða- og laganefndar, en formaður hennar er Anna Stefánsdóttir. Fyrirlesari dagsins var Pétur Már Ólafsson frá bókaútgáfunni Bjarti. Fjallaði hann um útrás íslenskra bókmennta og áhrifa hennar á bókaútgáfu á Íslandi. Hann sagði frá fyrstu íslensku höfundunum sem vöktu athyli á sér erlendis, og vaxandi útgáfu á verkum íslenskra höfunda á erlendum tungumálum. Þá sagði hann frá auknum áhuga erlendis á íslenskum höfundum, og væru bækur sumra þeirra seldar útgáfufyrirtækjum með því loforði að þær yrðu einhvern tíman skrifaðar.
Á fundinum afhenti stjórn Borga Sögufélagi Kópavogs kr. 50.000 í styrk. Við honum tóku Þórður Guðmundsson formaður félagsins og Ólínu Þorvarðardóttir. Að afhendingu lokinni ávarpaði Þórður fundarmenn og þakkaði styrkinn, sem notaður verður til að kaupa hljóðritunartæki fyrir félagið.
Þá ávarpaði Séra Sigurður Arnarson fundinn og sagði frá vígsluafmæli kirkjunnar og  upplýsti að fjármögnun byggingarinnar væri komin á beinu brautina; Salurinn væri mikið notaður, m.a. leigður út fyrir veislur og fundi. Þakkaði hann Borgum fyrir þann stuðning að halda fundi sína í salnum og styrkinn sem klúbburinn veitti til hljóðkerfis í salnum.


Fundurinn 31. janúar 2013 var í umsjón skemmtinefndar, en formaður hennar er Lára I. Ólafsdóttir. Kristján Ragnarsson kynnti fyrirlesara dagsins sem var Anna Sigríður Þórðardóttir hláturjógasérfræðingur. Hún sagði fundarmönnum frá uppruna hláturjóga og tók síðan einn æfingartíma á fundarmönnum.  Mikill hlátur í Borgum þann daginn.