Fréttir

14.10.2012

Fundir ágústsmánaðar

Fundirnir í ágúst voru af ýmsum toga

  Fundurinn 9. ágúst var fyrsti fundur eftir sumarleyfi. Fundurinn er í umsjón starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Jón Pétursson.

Í þriggja mínútna erindi sínu fór Friðgerður Friðgeirsdóttir 40 ár aftur á tímann og sagði frá dvöl sinni í Mjólkárvirkjun þar sem maður hennar var stöðvarstjóri.

Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir var gestur fundarins og sagði frá för sinni  í sumarbúðir til Ísrael í ungmennaskipti í júlí sl. Hún sagði fundarmönnum frá ferð sinni og bar klúbbnum kveðjur nokkurra Rótary klúbba sem hún sótti heim, og færði Borgum fána þeirra.
Aðal erindi fundarins hélt Steinþór Haraldsson, starfsstöðvarstjóri ríkisskattstjóra á starfsstöð embættisins á Hellu.  Hann talaði um skattamál.

Steinþór endaði erindi sitt með eftirfarandi vísu:

Ríkið leggur skatt á skatt
skattanetin þéttast.
Fjóspúkinn hann fitnar hratt
en flestir aðrir léttast.

Fundurinn 16. ágúst var í umsjón Þjóðmála- og dagskrárnefndar. Formaður nefndarinnar er Þóranna Pálsdóttir. Ólöf Þorvaldsdóttir flutti í byrjun fundar ljóðið Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson sem er óður til landsins.   

Fyrirlesari dagsins var Halldór Jóhannsson landslagsarkitekt, en hann fjallaði um Grímsstaði á Fjöllum, Huang Nubo og stöðu samninga hans á Íslandi og vangaveltur til framtíðar.
Halldór kynnti kínverska fjárfestinn og áætlanir hans á Grímsstöðum.  Fyrirlesari fór ítarlega yfir kosti þess að verkefnið fengi farsælan framgang.

Fundurinn 23. ágúst var í umsjá stjórnar.
Guðlaug Birna Guðjónsdóttir stjórnaði klúbbþingi. Meðal þeirra mála sem fjallað var um voru dagleg mál klúbbsins. Komu fram margar áhugaverðar ábendingar og athugasemdir og var þeim beint til stjórnar.

Ágúst Ingi Jónsson fjallaði um minnisstæðan atburð.  Sagði frá sjóslysi þegar vélbáturinn Hermóður fórst undan Reykjanesi í febrúar 1959, og með honum 12 manna áhöfn. Þá fjallaði hann um upphafsár sín sem fréttaritari við Morgunblaðið.

Fundurinn 30. ágúst var í umsjón alþjóða og laganefndar, en formaður hennar er Anna Stefánsdóttir.

Fyrirlesari dagsins var Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu og hélt hann erindi um viðbrögð norsku heilbrigðisþjónustunnar við ástandinu sem skapaðist eftir árásina í Osló og Útey 22. júlí 2011. Sveinn var í alþjóðlegri mats- og ráðgjafanefnd vegna málsins.