Fræðandi febrúarfundir
Starfsemin í Borgum fjölbreytt að vanda
Fundurinn þann 2. febrúar var í umsjá stjórnar og efni hans var kynning á Ástralíuferð í mars í starfshópaskiptum (GSE) á vegum Rótarý. Ólafur Helgi Kjartansson verður fararstjóri hópsins og kynnti hann hópinn sem fer í starfshópaskipti til Viktoríu og Suður Ástralíu. Þórir Ingvarsson tekur þátt í ferðinni og gerðu þeir Ólafur Helgi gein fyrir skipulagi ferðarinnar og sýndu kynningarefni um Ísland sem hópurinn er að undirbúa og verður notað í ferðinni. Erna Hauksdóttir afhenti ferðalöngum mynddiska með efni sem einnig hentar til kynninga á Íslandi. Þóra Þórarinsdóttir sagði frá minnisverðum máltíðum á ferðalagi í Rússlandi árið 1982 og sýndi endurgerðan nestispakka sem hún og ferðafélagar hennar fengu í flugferð þar í landi en nestið þótti heldur ólystugt.
Á fundinum þann 9. febrúar sem var í alþjóða- og laganefndar flutti Sigtryggur Baldursson aðal erindið. Sigtryggur er forstöðumaður Útón, sem er útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar og er rekin af ýmsum samtökum um tónlistarstarf í landinu í samvinnu við tvö ráðuneyti. Sigtryggur gerði grein fyrir helstu verkefnum skrifstofunnar sem eru s.s. upplýsingamiðlun, fræðslustarf og einnig styður Útón við tónlistartengda ferðamennsku s.s. Airwaves hátíðina. Útón er í samstarfi við fleiri tónlistarhátíðir og má nefna Myrka músikdaga í Reykjavík, Þjóðlagahátíðina á Siglufirði, Sumartónleika í Skálholti, Eistnaflug á Norðfirði o.fl. Sveinbjörn Sveinbjörnsson flutti 3ja mínútna erindið og sagði frá verkun á haustmat á ónefndum bæ í uppsveitum Árnessýslu fyrr á tíð. Þar kom fram að nauðsynlegt er að vanda hlutföll salts og saltpéturs þegar kjötið er saltað til vetrarins. Saltkjöt með of miklum saltpétri er ekki hollt til lengdar.
Fundurinn þann 16. febrúar var í umsjón umsjá þjóðmála- og dagskrárnefndar. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri var fyrirlesari dagsins. Erindi sitt nefndi hann Náttúruhamfarir og vegir. Hann lýsti verkefnum Vegagerðarinnar við skipulagningu vega og annarra mannvirkja með tilliti til mögulegra náttúruhamfara, sem m.a. er unnin í samstarfi við jarðvísindamenn hjá Háskóla Íslands. Helstu hamfaraatburðir sem bregðast þarf við eru eldgos og öskufall tengt þeim; jarðskjálftar; óveður; snjóflóð og skriðuhlaup eða gróthrun og jökulhlaup eða flóð af öðrum orsökum. Unnur Björgvinsdóttir sagði frá minnisverðri máltíð og rifjaði upp ferðalag til Kína og Tíbet þar sem maturinn féll ferðalöngum misvel í geð enda mjög framandi í mörgum tilfellum. Í Peking gengu menn fram á vestrænan veitingastað og urðu heldur glaðir við og talið er að máltíð á MacDonalds hafi sjaldan bragðast betur.