Stríð og friður
Forseti setti fund 15. janúar venju samkvæmt á slaginu klukkan 8, fagnaði einu afmælisbarni og sagði frá hugmyndum um næstu umdæmisstjóra.
Anna Stefánsdóttir fjallaði um söguna af Pollýönnu í þriggja mínutna erindi og sagði að bókin hefði fylgt henni frá barnsaldri. Anna las nýlega kafla úr bókinni fyrir tvær ömmustelpur, sem skildu hvorki upp né niður í orðum sem fram komu í textanum. Börn nútímans lesa talsvert öðru vísi texta alla jafna, sagði Anna, og hugsanlega hefði Pollýanna bara sagt að það væri gott að börnin hefðu nóg að lesa.
Gunnar Hrafn Jónsson, fréttamaður, var gestur fundains og fjallaði um Íslamska ríkið. Þessi hópur herskárra múslima ætlar sér meira heldur en að sprengja og drepa á Vesturlöndum. Þeir hyggjast koma upp bókstaflegu ríki með stjórnkerfi og innviðum. Gunnar sagði að hugmyndafræði ríkisins höfðaði til rótlausra karlmanna á Vesturlöndum, en í fræðunum er heimsendir meðal fastra punkta. Þeir hafa ekki bara lagt snörur sínar í moskum Arabalanda heldur einnig í netheimum hvar sem er á jarðkringlunni.
Eftir spurningar og greið svör var farið með fjórprófið og forseti sleit fundi á friðsömum nótum.