Fréttir

13.5.2011

Alþjóðastjórnmál

Illugi Gunnarsson alþingismaður heimsótti klúbbinn og ræddi efnahags- og stjórnmál innanlands og erlendisIllugi

 Fundur í Rótarýklúbbnum Borgum var haldinn 5. maí og hófst að venju 7,45.  Fundurinn var í umsjón alþjóðanefndar þar sem Guðmundur Þórðarson er formaður.

Fyrirlesari dagsins var Illugi Gunnarsson.  Guðmundur kynnti Illuga sem er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk MBA prófi frá London Business School.  Illugi hefur sinnt fjölbreytilegum störfum s.s. kennt, stundað rannsóknarvinnu, unnið hjá Vestfirskum skelfiski á Flateyri, verið aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar þá forsætisráðherra og verið þingmaður á Alþingi Íslendinga. 

Illugi byrjaði erindi sitt með því að fjalla lítillega um listir í tilefni opnunar Hörpu tónlistarhúss.  Megin umfjöllun hans var hagfræðileg og pólitísk nálgun á alþjóðastjórnmál og hagfræði.  Hann ræddi um pólitíska stöðu stórveldanna Kína og Bandaríkjanna sem sífellt verður viðkvæmari eftir því sem efnahagsleg staða þeirra í alþjóðasamfélaginu breytist.  Hann fjallaði um stöðu Evrópu og evruna sérstaklega í því samhengi.  Hann lýsti hvernig þróun Evrópu gæti orðið á sama veg og Bandaríkjanna þegar þau gengju í ríkjasamband og skuldir allra ríkjanna urðu sameiginlegar skuldir ríkjasambandsins.  Hann kom einnig inn á málefni Íslands í núinu og taldi möguleika Íslendinga til þess að ná sér úr efnahagsáfallinu, góða.