Uppgjör um áramót - október fundir
Fundir í október voru fróðlegir
Á fundinum 4. október voru reikningar síðasta starfsárs kynntir og bornir upp til samþykktar og kynnt fjárhagsáætlun núverandi starsárs.
Þriggja mínútna erindi flutti Lilja Ólafsdóttir. Hún fjallaði um sumarbúðir sem hún sótti á 7. ári í Glaumbæ við Straum. Þarna var mikill agi og refsingum beitt óspart. Hún fór síðar í Kaldársel og Vindáshlíð, en þar var bara gaman.
Fundurinn var í umsjón stjórnar. Guðmundur Jóelsson, annar endurskoðandi reikninga klúbbsins gerði grein fyrir reikningum síðasta árs og Arnþór Þórðarson fór yfir fjárhagsáætlun næsta árs.
Fyrirlesari dagsins var Bjarki Sveinbjörnsson, en hann kynnti nýlega endurbætta útgáfu af Ísmús gagnagrunninum sem er í eigu Tónlistarsafns Íslands í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar.
Á fundinn 11. október mættu Kristján Haraldsson, umdæmisstjóri Rótarý, Rkl. Ísafjarðar og kona hans Halldóra S. Magnúsdóttir. Aðalefni fundarins var erindi umdæmisstjóra. Hann sagði frá starfsemi Rótarý hreyfingarinnar um allan heim en hún starfar nú í 217 löndum og félagar eru um 1200 þúsund. Félagar á Íslandi eru nú 1268 í 31 klúbb.
Áherslur umdæmisstjóra á þessu starfsári eru sýnilegra starf, virkari þátttaka í verkefnum og fjölgun rótarýfélaga. Þó taldi hann fjölda félaga í Borgum það mikinn að ekki væri ástæða til fjölgunar hér. Erindi Kristjáns var brotið upp með tónlistaratriði þar sem ung tónlistarkona, Rannveig Marta Sarc lék listilega á fiðlu. Rannveig Marta er konsertmeistari Ungsinfoníunnar og hún er dóttir Svövu Bernharðsdóttur félaga í Borgum.
Fundurinn 18. október var í umsjá Alþjóða-og laganefndar þar sem formaður er Anna Stefánsdóttir. Þriggja mínútna erindi flutti Lárus Ásgeirsson. Hann tók okkur 20 ár til baka, á þeim tíma sem Sovétríkin voru að liðast í sundur. Hann er staddur í Singapúr í 40 stiga hita í erindum fyrirtækisins Marel. Rússneskur skipstjóri bauð Lárusi um borð í mat, í rússneska kjötsúpu. Hún var borin fram kæld, með þykkri fituskán sem þurfti að brjótast í gegnum. Fyrirlesari dagsins var Jóhanna Kristjánsdóttir rithöfundur og fararstjóri.
Jóhanna talaði um ástandið í Sýrlandi og hið versnandi ástand sem þar er með degi hverjum, bæði þar og í löndunum í kring. Hún fór yfir hverjir hafa verið tveir síðustu forsetar Sýrlands og hvað þeir stóðu fyrir, umbreytingar og áherslur á öryggi, með því að taka fólk af lífi. Hún talaði um uppbyggingu, nútímavæðingu og frið sem snúist hefur í niðurrif, afturhald og stríð. Hún sagði frá einkennum Sýrlendinga, spjallgóðum konum og arabíska vorinu, sem aldrei náði að verða sumar. Hún sagði frá árþúsunda gömlum menningarverðmætum sem lagðar hafa verið í rúst, og frá fjöldamorðum á fólki hvers lík voru notuð sem undirlag undir malbik. Við fengum að heyra af merkilegu fólki sem á sér merkilega sögu sem á sér ómerkilega leiðtoga sem erfitt er að sjá hvernig koma megi undir malbik.
Fundurinn 25. október var í umsjá Þjóðmálanefndar þar sem formaður er Þóranna Pálsdóttir.
Sveinsína Ágústsdóttir flutti þriggja mín. erindi sem fjallaði um eftirminnilega kennslustund í þýsku árið 1973 hjá ungum síðhærðum manni með þykk gleraugu. Eftir þennan tíma mætti hún ekki aftur ólesin í þýskutíma.
Gunnar Hersveinn Sigursteinsson heimspekingur var fyrirlesari dagsins. Hann flutti hugleiðingu undir formerkjunum „tíðarandar takast á“. Fór hann vítt og breitt um þetta svið, m.a tíðarandann fyrir og eftir efnahagshrunið svo og hin ýmsu gildi, neikvæð og jákvæð. Að lokinni hugleiðingu fóru fram samræður fyrirlesara og fundarmanna um þetta efni