Fréttir
Framtíð í fiskeldi á fyrsta fundi ársins
Létt var yfir félögum í Borgum á fyrsta fundi ársins, þeim 21. á starfsárinu, er fundað var 8. janúar 2015. Forseti setti fund og bauð félögum gleðilegt ár, auk þess sem hann kom nokkrum skilaboðum á framfæri.
Þriggja mínútna erindi flutti Gunnsteinn Sigurðsson og sýndi hann nokkrar myndir sem tengjast sögu Kópavogs. Elsta myndin var frá árinu 1942 tekin úr þýskri njósnavél. Þá brá hann upp mynd af kampi og bragga þar sem Framfarafélags Kópavogs var stofnað árið 1945. Gunnsteinn rakti sögu bæjarins í stuttu máli með myndunum og dró einnig upp mynd af framtíðarhugmyndum um uppbyggingu við Smárahverfi.
Fyrirlesari dagsins var Hermann Kristjánsson forstjóri Vaka í Kópavogi og talaði um nýsköpun og útflutning á hugviti. Fyrirtækið var stofnað 1986 og hefur einkum starfað í tengslum við fiskeldi. Hermann telur mikla vaxtarmöguleika í iðnvæddu fiskeldi og rakti ferilinn frá seiðaeldi til slátrunar. Vaki hefur haslað sér völl með þróaðri tækni og notar m.a. myndavélatækni við fiskitalningu og stærðarmælingar og framleiðir sónartæki sem greina atferli fiska í eldi.
Að lokum var farið með fjórprófið og fundi slitið.