Fréttir

4.3.2015

Algebran erfið

Forseti setti fund 26. febrúar og að loknum tilkynningum var Svava Bernharðsdóttir með þriggja mínútna erindi. Hún sagði frá óvæntri ferð á tónlistarnámskeið í Brasilíu. Til að gera langa sögu stutta þá var þessi ferð full af óvæntum uppákomum og þegar öll sund virtust lokuð voru lausnirnar miklu skemmtilegri en upphaflega planið.


Anna Helga Jónsdóttir , tölfræðingur, aðjúnkt og doktorsnemi fjallaði um úttektir fyrir þremur árum á stærðfræðikennslu framhaldsskóla og stöðu nemenda sem hefja nám í raungreinum og verkfræði við HÍ. Hún sagði meðal annars að skortur væri á vönduðu kennsluefni í stærðfræði í framhaldsskólum og menntun stærðfræðikennara væri ábótavant. Í könnunarprófi fyrir 1829 nemendur, sem fór fram án hjálpargagna, var árangur í algebru áberandi slakur miðað við þá áherslu sem lögð er á greinina í framhaldsskólum.