Ungir snillingar í Kópavogi
Rótarýklúbburinn Borgir í Kópavogi hefur verðlaunað tvo unga Kópavogsbúa með nafnbótinni "Ungur snillingur í Kópavogi 2009". Þau eru Álfheiður Björgvinsdóttir og Víðir Smári Petersen sem bæði eru fædd 1988.
Álfheiður gekk í Þinghólsskóla, var skiptinemi í Argenínu og lauk stúdentsprófi með ágætiseinkunn vorið 2008. Hún er að undirbúa sig undir burtfararpróf í píanóleik frá Tónlistarskóla Kópavogs nú í vor. Hún er þar að auki mikil skíðakona og hefur verið stuðningsfulltrúi fyrir Rauða Krossinn fyrir flóttakonur frá Kólumbíu.
Víðir Smári gekk í Digranesskóla, varð stúdent frá MK og var dúx skólans. Hann les nú lögfræði við Háskóla Íslands. Hann lærði á klarinett, spilaði í skólahljómsveit Kópavogs og lauk burtfararprófi á klarinett í fyrra. Víðir er formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins. Hann keppti fyrir hönd MK í þrjú ár í Gettu betur og tók þátt í spurningakeppninni Útsvar í sjónvarpinu fyrir hönd Kópavogs í fyrra og í ár. Víðir varð Íslandsmeistari barna í skák 1999.
Á myndinni sjást Karl Skírnisson forseti rótarýklúbbsins Borga ásamt Álfheiði og Víði Smára (myndina tók Marteinn Sigurgeirsson).