Fréttir

3.7.2015

Hætumerki í heilbrigðiskerfinu

Fundur 25.júní

Forseti setti fund sem var síðasti reglulegur fundur starfsársins.  Hann þakkaði Freyju matráðskonu og hennar fólki í safnaðarheimilinu fyrir góða þjónustu í vetur. Birna Bjarnadóttir kvaddi sér hljóðs og þakkaði félögum sem unnið hafa að lausn á fjárhagsvanda Sunnuhlíðar að undanförnu, þeim Guðmundi Ásgeirssyni, Þóru Þórarinsdóttur og Sigurrós Þorgrímsdóttur, ásamt Sveinbirni Sveinbjörnssyni sem var hópnum til ráðgjafar.


Anna Wernersdóttir flutti 3ja mínútna erindi og lýsti aðdraganda þess að hún gerðist félagi í Borgum, sem var ekki síst til þess að kynnast fólki úr fleiri starfsstéttum en kennurum sem hún umgengst annars mest.  Reynsla hennar af þátttöku í klúbbnum hefur verið ánægjuleg í alla staði. 


Fyrirlesari á fundinum var Birgir Jakobsson landlæknir. Hann var ómyrkur í máli og lýsti skoðununum sínum á nauðsynlegum breytingum í heilbrigðiskerfinu til að ná upp árangri og gæðum sem hafa tapast m.a. vegn niðurskurðar eftir hrunið.  Meðal þeirra atriða sem hann benti á voru endurskoðun á skipulagi og mönnun heilsugæslunnar, breytingar á sérfræðiþjónustu lækna og nýbygging og efling landsspítalans sem ekki má dragast lengur.  Einnig taldi hann nauðsynlegt að breyta kerfi fjárveitinga þannig að það feli í sér hvatningu til betri þjónustu. 


Töluverðar umræður urðu um erindi Birgis og vannst ekki tími til að ræða öll atriði sem bar á góma.

Forseti sleit síðan fundi og minnti á næsta reglulega fund á nýju starfsári þann 6. ágúst.