Fréttir
  • Rótarýsjóður

30.5.2013

Nýstárlegar aðferðir til fjáröflunar fyrir Rótarýsjóðinn í Rkl. Borgum í Kópavogi

Rótarýsjóðs- og rótarýfræðslunefnd Borgaklúbbsins  í Kópavogi hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir óhefðbundnum fjáröflunum meðal félaga í klúbbnum til styrktar Rótarýsjóðnum


Rótarýsjóðs- og rótarýfræðslunefnd Borgaklúbbsins  í Kópavogi hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir óhefðbundnum fjáröflunum meðal félaga í klúbbnum til styrktar Rótarýsjóðnum. Nýverið afhenti nefndin forseta klúbbsins, Inga Kr. Stefánssyni 200 þúsund krónur. Þar var á ferðinni ágóði af sölu á barmmerkjum, skrautnælum, bindum og treflum, vörum sem bera merki Rótarýhreyfingarinnar og félagar hennar eru hvattir til að bera til að gera hreyfinguna sem sýnilegasta. Í fyrra safnaðist ámóta upphæð á uppboði sem nefndin gekkst fyrir þar sem félagar í Borgum buðu í verk sem listamenn innan klúbbsins voru fengnir til að gefa á uppboðið. Þar kenndi margra grasa því meðal félaganna eru tónlistarmenn sem komið hafa fram á fjöldanum öllum af geisladiskum, rithöfundar, ljósmyndarar og allmargir bráðflínkir frístundamálarar. Uppboðið var hið fjörlegasta og stemmingin sem skapaðist bráðskemmtileg. Forseti tók einnig við viðurkenningu frá Rótarý vegna framlags frá fyrra ári.  Fyrir atbeina Rótarýfræðslunefndarinnar hefur Rótarýsjóðurinn því undanfarin tvö ár fengið ríflega 400þ krónur frá félögum úr Rkl. Borgum. Við þá upphæð bætist síðan að sjálfsögðu hefðbundið árlegt framlag.

 

 

 

Á myndinni eru Ingi Kr. Stefánsson forseti, Karl Skírnisson, formaður Rótarýfræðslunefndar Borga, Guðlaug Birna Guðjónsdóttir, Margrét Friðriksdóttir og Kristján Guðmundsson. Einn nefndarmanninn, Stefán Björnsson, vantar á myndina.