Uppgjör um áramót - nóvember fundir
Fundurinn 1. nóvember var í umsjón Framkvæmdanefndar en formaður hennar er Málfríður Klara Kristiansen. Guðmundur Jóhann Jónsson flutti 3ja mínútna erindi. Í því rifjaði hann upp tíma þegar hann bjó með fjölskyldu sinni í Edinborg fyrir margt löngu. Þau höfðu boðið íslenskri fjölskyldu í mat á gamlárskvöld, en eftir matinn skyldi farið út í garð að kveikja á blysum. Vildi ekki betur til en þau læstust úti og gekk á miklu þar til þau komust inn aftur.
Á fundinum fór fram forval til kosninga næstu stjórnar og stjórnaði Málfríður Klara forvalinu.
Þiggja mínútna erindi flutti Bergljót Sveinsdóttir. Hún rifjaði upp bernskuminningar frá sumrinu 1947 vestur á fjörðum þar sem hún heimsótti afa sinn og annað frændfólk. Fyrirlesari dagsins var Þóra Þórarinsdóttir. Þóra, sem er félagi í Borgum, flutti starfsgreinaerindi er kallaðist „Viljinn í verki“. Þóra fjallaði um Ás styrktarfélag, sem hún er framkvæmdastjóri fyrir og hina umfangsríku starfsemi þess. Hún fór ítarlega yfir sögu félagsins, uppbyggingu þess, bæði félagslega og skipulag starfseminnar. Fram kom í máli Þóru að 265 starfsmenn störfuðu á vegum félagsins og skjólstæðingar þess væru 233. Þá rakti hún hin fjölbreyttu verkefni sem félagið vinnur að, allt frá daglegri þjónustu við íbúa hinna fjölmörgu íbúða sem félagið rekur svo og samstarf, bæði innlent og erlent.
Félagavalsnefnd sá um fundinn 15. nóvember en formaður er þar Sverrir Arngrímsson.
Fyrirlesari dagsins var Stefanía Katrín Karlsdóttir. Hún flutti mjög ítarlegt erindi um möguleika í fiskeldi og matvælaframleiðslu. Hún sagði frá fyrirtæki sínu, Matorku, sem hefur það að markmiði að auka matvælaframleiðslu til útflutnings frá Íslandi. Vegna mikillar fjölgunar fólks í heiminum eykst eftirspurn eftir mat. Tvöfalda þarf matvælaframleiðslu til að fullnægja eftirspurn inn í framtíðina.
Fundurinn 29. nóvember var í umsjón Framkvæmdanefndar. Anna Stefánsdóttir kynnti ný sérlög klúbbsins. Ragnar Th. Sigurðsson skýrði í máli og myndum frá heimsóknum sínum til Svalbarða og austurstrandar Grænlands sem hann hafði tekið. Dró hann félagana inn í undraheim náttúrunnar. Þá sagði Ragnar frá námskeiði þar sem hann kennir að mynda norðurljósin og sýndi nokkrar myndir frá því verkefni. Þá kastaði hann upp myndum af hestum sem hann er að ljósmynda fyrir hestamannamót, bæði sem stúdíómyndir og myndir af hestum í íslenskri náttúru.
Að lokum voru kynnt úrslit úr stjórnarkjöri sem fór þannig:
Forseti: Magnús Jóhannsson
Ritari: Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir
Gjaldkeri: Rannveig Guðmundsdóttir
Stallari: Ragnar Th. Sigurðsson.