Fréttir

11.3.2009

Eldhugi Kópavogs 2009

Rótarýklúbbur Kópavogs útnefnir Pál Theódórsson Eldhuga Kópavogs 2009

Rótaryklúbbur Kópavogs hefur útnefnt rúmlega áttræðan mann, Pál Theódórsson, Eldhuga Kópavogs 2009, mann sem hugsanlega á eftir að sýna fram á að saga byggðar á Íslandi sé um 150 árum lengri en tímatal Ara Fróða segir. Aldursgreiningar með kolefni-14 aðferðinni á sýnum frá umfangsmiklum fornleifarannsóknum í Kvosinni og á Heimaey fyrir rúmum 30 árum gáfu sterka vísbendingu í þessa átt.

 

Páll Theodórsson með forseta Rótarýklúbbs Kópavogs, Guðmundi Jens Þorvarðarsyni og formanni viðurkenningarnefndar klúbbsins, Guðmundi Þ. HarðarsyniNiðurstöðunum var hinsvegar algjörlega hafnað af íslenskum fornleifafræðingum og sagnfræðingum. En Páll telur, eftir að hafa skoðið málið vandlega, að tímatal Ara, sem var skráð um 250 árum eftir landnám Ingólfs, geti ekki ómerkt niðurstöður vísindalegra mælinga, þetta þurfi því að sannreyna með fleiri og nákvæmari aldursgreiningum. Þetta hefur Páll gert að öðru meginverkefni sínu eftir að hann fór á eftirlaun.

Að loknu námi í eðlisfræði (Mag. Scient) frá Hafnarháskóla 1955 með kjarneðlisfræði sem sérgrein  réðst Páll til starfa við nýstofnaða kjarnorkurannsóknarstöð sem Danir byggðu í Risö. Þar lagði hann með tveimur dönskum verkfræðingum grunn að framsýnni kortlagningu á geislavirkni á stóru svæði umhverfis rannsóknastöðina. Þar var beitt nýjum geislanemum sem Páll fann upp og danska kjarnorkunefndin fékk einkaleyfi á. Þegar Eðlisfræðistofnun Háskólans var sett á laggirnar 1958 undir forystu Þorbjörns Sigurgeirssonar, prófessors, réðst Páll til starfa þar og vann þar við margvíslegar geislamælingar, mælingar á geislun í andrúmslofti, mjólk og vatni, en um þessar mundir voru tilraunasprengingar kjarnorkuveldanna í algleymi og veruleg aukning á geislavirkni um alla jörð. Páll  hefur komið víða við á starfsferli sínum, en meginviðfangsefni hans hafa verið mælingar á geislavirkum efnum, einkum mælingar á daufri geislun, geislun sem oftar en ekki er sem smá suð til viðbótar við þá náttúrulegu geislun. Hann hefur skipað sér í fremstu röð á þessu sviði, m.a. skrifað bók, Measurement of  Weak Radioactivity, sem var gefin út 1996 af alþjóðlegu fyrirtæki i Singapore.

 Árið 2007 var stofnað til samvinnuverkefnis Raunvísindastofnunar Háskólans, Skógræktar ríkisins og aldursgreiningarstofu í Póllandi til að aldursgreina um 200 kolagrafir frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og er Páll þar frumkvöðull og verkefnisstjóri. Verkefnið hlaut þriggja ára rannsóknarstyrk frá Rannís í fyrra í harðri samkeppni við unga og upprennandi vísindamenn. Það er fátítt að menn á hans aldri komi til álita, hvað þá hreppi hnossið, í þeirri samkeppni.

Páll er fæddur í Reykjavík 1928. Eiginkona hans er Svandís Skúladóttir, fyrrum deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu. Svandís var fyrsta konan sem var kosin í bæjarstjórn Kópavogs og átti sæti þar 1962 – 1974 og forseti bæjarstjórnar í 4 ár. Svandís og Páll eiga 4 börn og 7 barnabörn og hafa búið í Kópavogi í meira en 50 ár.

Páll Theodórsson er 13. einstaklingurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu Rótarýklúbbs Kópavogs.

Myndatexti: Páll Theodórsson með forseta Rótarýklúbbs Kópavogs, Guðmundi Jens Þorvarðarsyni og formanni viðurkenningarnefndar klúbbsins, Guðmundi Þ. Harðarsyni.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning