Fréttir

29.4.2011

Vatnsdæla á refli

Húnvetningurinn Jóhanna E. Pálmadóttir á Akri kynnti verkefnið Vatnsdæla á refli

Vatnsdaela2

 

Fundur í Rótarýklúbbnum Borgum var haldinn 28. apríl og hófst að venju 7,45.  Fundurinn var í umsjá dagskrár- og þjóðmálanefndar sem Emma Eyþórsdóttir stýrir.  Kynnti Emma fyrirlesarann sem var Jóhanna Pálmadóttir handavinnukennari og sauðfjárbóndi á Akri í Austur Húnavatnssýslu. 

Jóhanna fjallaði um verkefnið Vatnsdæla á refli þar sem sögu Vatnsdæla verða gerð skil með útsaumi á 45 metra löngum refli.  Verkefnið Vatnsdæla á refli á fyrirmynd í Bayeux-reflinum sem saumaður var á 11.öld.  Markmiðið er að endurvekja forna sögu með frumlegum og nýstárlegum hætti í samstarfi við unga hönnuði samtímans.  Hæð og lengd afmarkast af vinnu hönnuða og fræðimanna. Samhliða því eru fornri útsaumsgerð, refilsaumnum, gerð skil.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og hönnuður,  hefur umsjón með hönnun myndefnis sem útfært verður nánar af nemendum á 2. ári í grafískri hönnun við LHÍ. Næsta sumar hefst vinna við að sauma út í sjálfan refilinn. Þá gefst almenningi, jafnt heimafólki, ferðamönnum og öðrum gestum, kostur á að marka spor í menningarsöguna með því að koma við í Kvennaskólanum á Blönduósi og taka þátt í útsaumnum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Ístex, Textílsetur Íslands á Blönduósi og félagið Landnám Ingimundar gamla. 

Vatnsdaela1