Fréttir
Streð og stuð í björgunarsveitum
Sigrún Sigurðardóttir flutti þriggja mínútna erindi á fundinum 12. mars og sagði frá því að þegar hún og fjölskylda hennar hefðu skipt um íbúðir hefði einhver flutt með þeim. Hlutir hefðu iðulega horfið á óútskýrðan hátt fyrst eftir að fjölskyldan hefði komið sér fyrir á nýjum stað. Þessu linnti ekki fyrr en Sigrún talaði rækilega yfir hausamótunum á prökkurunum.
Jóhannes Gísli Kolbeinsson og Stefán Már Ágústsson sögðu frá starfi Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, allt frá tveggja ára nýliðaprógrammi þar til fólk er orðið fullæft og undirbúið fyrir erfið útköll. Sveitin var stofnuð sem hraðfara fjallasveit fyrir 65 árum í kjölfar Geysisslyssins og eru nú alls 448 manns í sveitininni, en um 165 eru skráðir virkir. Starfið er stundum mikið streð, en líka stuð og skemmtun og náinn félagsskapur. Flugbjörgunarsveitin er nú hluti af sveitum Landsbjargar og sannarlega hefur verið nóg að gera hjá björgunarsveitunum á þessum vetri.