Fréttir

10.12.2010

Ferðasaga í máli og myndum

Aðventuferð í Borgarfjörð 28. nóvember 2010

Rótarýklúbburinn Borgir brá undir sig betri fætinum sunnudaginn 28. nóvember s.l. og hélt í dagsferð upp í Borgarfjörð. 

Rótarýklúbburinn Borgir brá undir sig betri fætinum sunnudaginn 28. nóvember s.l. og hélt í dagsferð upp í Borgarfjörð.  U.þ.b. 50 manns, félagsmenn og makar, áttu frábæran dag í frostköldu og yndislegu vetrarveðri og góðum félagsskap.

jólaferð 4Fyrst var áð skamma stund undir Akrafjalli á slóðum Jóns Hreggviðssonar og heilsað upp á danskan ferðafélaga ásamt þýskum vini hans. 

jólaferð 3

 

 

Síðan var haldið í Ferjukot þar sem Þorkell Fjeldsted og fjölskylda tóku á móti hópnum og fræddu um sögu og staðhætti.  Þarna mætast gamli og nýi tíminn á mjög sérstakan hátt og var mjög fróðlegt að heyra frásagnir heimamanna og skoða gamla muni og myndir, ekki síst af byggingu Hvítárbrúarinnar sem allir þekkja.

 Eftir dvölina í Ferjukoti var haldið að Hvanneyri þar sem Bjarni Guðmundsson tók á móti hópnum, leiddi til kirkju og safna og fræddi um sögu og hlutverk staðarins. 

jólaferð 7Þá var ekki ónýtt að hafa “heimamanninn” Emmu Eyþórsdóttur, félaga okkar með í för og hafði hún einnig ýmislegt til málanna að leggja enda hagvön á staðnum. 

jólaferð 8

 

 

Eftir fræðslu, skoðanir og dýrlega kaffi- og kökuveislu var haldið upp að bænum Hesti þar sem Landbúnaðarháskólinn rekur fjárbú og þar var hún Emma okkar svo sannarlega í essinu sínu.  Við fengum fræðslu um nánast allt sem snýr að ræktun íslensks fjárstofns auk þess að heilsa upp á kindur og hrúta og allt þar á milli.  Fór vel á með okkur og “heimamönnum” eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

jólaferð 11

 

 

 

jólaferð 12

 

Loks var haldið að Hótel Hamri rétt ofan við Borgarnes þar sem Unnur Halldórsdóttir og hennar fólk tók á móti okkur með kostum og kynjum.  Ekki var nóg með að boðið væri upp á dýrlegt jólaborð heldur fór Unnur á kostum í mæltu máli og bundnu og kallaði, auk þess, til liðs við sig heimamenn til tónlistarflutnings sem “kryddaði” stundina til muna. Tvær systur úr Borgarnesi, þær Theodora og Birna, fluttu okkur “systradúett” við góðar undirtektir.  Þá flutti einnig Magnús Jóhannsson, félagi okkar, hugvekju.

            Heim var komið um níuleytið um kvöldið eftir frábærlega velheppnaða ferð sem skilur eftir góðar minningar.

 

Eftirmáli:   

Eins og allir þekkja þá var á sínum tíma “Botninn suður í Borgarfirði” og því þótti Inga Kr. félaga okkar við hæfi að láta á reyna, hvort enn reyndist svo.  Lagði hann fram þrjá fyrriparta og óskaði eftir botnum.  “Afurðirnar” má sjá hér á eftir og verður hver og einn að dæma um, hvernig til hefur tekist.

 

Ingi Kr.

Í Borga-ferð er brýnt að vera

bæði hress og vakandi.

Má þar margt til gamans gera

gersamlega óakandi.

(óakandi, sbr. óalandi,óferjandi o.s.frv.)

 

 Skarðsheiði og Skessuhorn

skarta sínu besta.

Nú yrkja mætti kvæðiskorn

um kindur , naut og hesta.

 

 

Borgir prísið best og mest

botnið vísu þessa.

Þar prúðar dísir prýðir flest

því pent ég lýsi og blessa.

 

Hrafn Andrés:

Í Borga-ferð er brýnt að vera

bæði hress og vakandi.

Því sorga mergð er sárt að bera

sálu-vessa bakandi.

 

Skarðsheiði og Skessuhorn

skarta sínu besta.

Mér er kærust minning forn

meðal ljóða-hesta.

(ath. Ljóða-hestur=Pegasus, skáldfákurinn!)

 

Borgir prísið best og mest

botnið vísu þessa.

Best og mest er BúdaPest

og bærileg Ódessa!

 

Þessar voru því miður aldrei fluttar í rútunni:

 

Fyrriparta færði Ingi

farandkvæðamönnunum

botnarnir sem ber á lyngi

bitrir undir tönnunum.

 

Forskot  vildi fá sér Ingi

með fyrripörtum hér á þingi

að botna tókst þó Byrgja engi

þótt berðust við það ótt og lengi.

(byrgjar=félagar í Borgum)

 

 Guðmundur Jóelsson

Í Borga-ferð er brýnt að vera

bæði hress og vakandi.

Fleygar vænir gagn þar gera

og gott að vera´ei akandi.

 

Skarðsheiði og Skessuhorn

skarta sínu besta.

Bændafólk og býlin forn

búast komu gesta.

 

Borgir prísið best og mest

botnið vísu þessa.

Akrafjall er allra verst

það ER hreint eins og klessa.

 

(Skýring á síðasta botninum er sú, að þegar hann varð til í fljótræði, var rútan að aka meðfram Akrafjalli sem að sjálfsögðu er með fegurri fjöllum landsins!).

Ásrún

Í Borga-ferð er brýnt að vera

bæði hress og vakandi.

En eftir gammel, um að gera

ekki' að vera akandi.

 

Skarðsheiði og Skessuhorn

Skarta sínu besta.

Að tralla saman tímakorn

trúi' ég gleðji flesta.

 

Borgir prísið best og mest

botnið vísu þessa.

Ef ekki botnar Ingi best

aldeilis verð ég hlessa.

 

           

Svava

Í Borga-ferð er brýnt að vera

bæði hress og vakandi.

Ýmislegt þar er að gera

angur burtu takandi. 

 

Skarðsheiði og Skessuhorn

skarta sínu besta

Hjart-gott fólk og hjónakorn

hér á meðal gesta.

 

Borgir prísið best og mest

botnið vísu þessa. 

Ein pían hér vill prest og hest

og pontu í að messa.