Fréttir

25.3.2011

Tónlist og vatn

Dagskrá tveggja síðustu funda klúbbsins

Ferð í Tónlistarsafnið og fyrirlestur um VatnaviniTonlistarsafn-Rot.-Borgir-001

 

Fundur sem haldinn var þann 17. mars sl. var í umsjón skemmtinefndar þar sem Ingi Kr. Stefánsson er formaður.  Fundurinn hófst á hefðbundinn hátt á morgunverði í Safnaðarheimilinu en að því loknu var farið í Tónlistarsafn Íslands sem er í allra næsta nágrenni við hefðbundinn fundarstað félaga í Borgum.  Þar tók klúbbfélaginn Bjarki Sveinbjörnsson á móti hópnum og greindi frá starfsemi safnsins.  Hann sagði frá sýningu sem þar er í gangi um þessar mundir um Sveinbjörn Sveinbjörnsson píanóleikara og tónskáld.  Sveinbjörn er þekktastur fyrir að vera höfundur þjóðsöngs Íslendinga – Ó,  guð vors lands. Tonlistarsafn-Rot.-Borgir-006

Á sýningunni mátti sjá ýmsa persónulega hluti úr eigu Sveinbjörns svo sem píanó sem hann átti hér á landi og annað lítið píanó úr silfri sem hann hafði fengið í heiðursgjöf.  Ljósmyndir var þar að sjá, handrit, skjöl og fleira sem varpar ljósi á ævi og störf Sveinbjörns.  Sýningin er sett upp á skemmtilegan hátt á veggspjöldum.  Auk þessa má sjá á sýningunni ættartölu Sveinbjörns, teppi með útsaum eftir föður hans og fleira.  Einnig er þarna að finna myndskreytta frásögn af lífi og starfi tónskáldsins. Tonlistarsafn-Rot.-Borgir-003 

 

Fundurinn þann 24. mars var í umsjón menningarmálanefndar þar sem Málfríður Klara Kristiansen er formaður.  Bergljót Sveinsdóttir gerði grein fyrir bókinni á náttborðinu sem að þessu sinni voru þrjár ljóðabækur.  Las hún upp nokkur ljóð eftir höfunda bókanna og var ákaflega ánægjulegt og frekar óvenjulegt að hlusta á ljóðalestur á þessum tíma dagsins.  Málfríður Klara kynnti fyrirlesara dagsins sem var Sigrún Birgisdóttir lektor við Listaháskóla Íslands.  Í erindi sínu fjallaði Sigrún um verkefnið Vatnavinir. island

Vatnavinir eru alþjóðlegur hópur fagmanna úr ýmsum greinum sem tengjast þróun og uppbyggingu heilsustöðva og tengdrar ferðaþjónustu. Verkefni Vatnavina um Heilsulandið Ísland stuðlar að sjálfbærri uppbyggingu og atvinnusköpun á landsvísu með eflingu heilsutengdrar ferðaþjónustu í nánum tengslum við jarðvarma og náttúru landsins. 

Vatnavinir Vestfjarða hlutu ásamt áfangastaðnum Vestfjörðum, Eden-ferðamálaverðlaunin, við hátíðlega athöfn í Brussel í september 2010. Einn áfangastaður er valinn frá hverju þátttökuríki í Evrópu og hljóta verðlaunahafar titilinn „2010 EDEN Destination for Sustainable Aquatic Tourism”. Verðlaunin eru árlega veitt áfangastöðum í Evrópu sem þykja nálgast ferðamennsku með frumlegum hætti ásamt því að leggja sérstaka áherslu á sjálfbæra ferðaþjónustu. Markmiðið með verðlaunaveitingunni er að auka sýnileika afburða ákvörðunarstaða sem gjarnan eru lítt þekktir. Vatns- og sjávartengd ferðaþjónusta var þemað í ár og voru Vestfirðir á meðal 25 áfangastaða sem voru verðlaunaðir.vatnavinir2-krossneslaug2-250x176

Vatnavinir Vestfjarða er samstarfshópur í heilsutengdri ferðaþjónustu þar sem landeigendur, ferðaþjónar, stjórnsýsla og aðrir áhugamenn á Vestfjörðum vinna í nánu samstarfi með Vatnavinum og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða sem hlúð hafa að framgangi verkefnisins. Fagstjóri Listaháskólans í arktektúr, fagstjóri fræðigreina í myndlist og ennfremur nokkrir stundarkennarar við LHÍ eru meðal stofnenda Vatnavina og stuðluðu að stofnun Vatnavina Vestfjarða ásamt Atvest og sjálfstæðum ferðaþjónum á Vestfjörðum.