Fréttir

10.6.2012

Norður og suður

Fyrstu tveir fundir maí mánaðar tengdust norður- og suðurhveli jarðar eða Grænlandi og Ástralíu.olh

Fundurinn 3. maí var í umsjón stjórnar og stjórnar styrktarsjóðs klúbbsins. Margrét Kr. Gunnarsdóttir sagði frá minnisverðri máltíð frá sínum yngri árum þegar systir hennar sinnti matseld í veikindum móður þeirra. Margrét var í sumarvinnu á Selfossi og kom færandi hendi heim með grænt tyggjó til systur sinnar. Tyggjóplatan lenti óvart ofan í grautarpotti með hafragraut sem verið var að elda svo úr varð grautur með tannkremsbragði.
Aðalefni fundarins var frásögn fararstjóra og þátttakenda í starfshópaskiptum til Ástralíu í mars sl.  Ólafur Helgi Kjartansson fararstjóri hópsins hafði orð fyrir ferðalöngum. Samtímis voru sýndar myndir frá ferðinni. Ólafur stiklaði á stóru um viðburðaríka ferð í fjórar vikur um þrjú ríki Ástralíu. Gestum var tekið með kostum og kynjum alls staðar og allar óskir um heimsóknir uppfylltar. Gist var á heimilum rótarýfélaga sem gerði ferðina mun persónulegri en ella. Hópurinn tók þátt í umdæmisþingi Rótarý í Wanneba. Þórir Ingvarsson lögreglumaður og Guðrún Guðmundsdóttir þroskaþjálfi sögðu einnig stuttlega frá upplifun sinni af ferðinni. Í lokin afhenti Guðrún fána frá 13 áströlskum rótarýklúbbum sem þau heimsóttu.astralia

 

Undir lok fundar barst ritara vísa frá verðandi forseta ( Inga Kr.) í tilefni af orðalagi fundargerðar sem lesin var á fundinum þar sem sagt var frá fyrirhuguðum Esjugöngum:

Nú verður biðin býsna löng

hjá bernsku minnar vinum.

Þeir ætla að gera Esjugöng

á undan flestum hinum.
 
Menningarmálanefnd annaðist efni fundarins þann 10. maí en formaður hennar er Málfríður Klara Kristiansen.  

Ragnar Th. Sigurðsson sagði frá minnisverðri máltíð á ársfundi klúbbs landkönnuða, sem er gamall og virðulegur félagsskapur og heldur ársfundi sína á Hótel Astoria í New York. Þar var reitt fram forréttahlaðborð með ákaflega framandi réttum, sem ekki voru allir jafn girnilegir. Dæmi: djúpsteiktar tarantúlur, steiktar bjöllur og lirfur, marglyttur með móteitri og ótal margt fleira.
Aðalefni fundarins var erindi Önnu Gyðu Gunnlaugsdóttur hjúkrunarfræðings og ljósmyndara, sem sagði frá dvöl sinni á Grænlandi þar sem hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur um tíma. Hún sýndi myndir frá Nuuk og nágrenni þar sem hún bjó og brá upp svipmyndum af umhverfi daglegs lífs, húsum af ýmsum stærðum og gerðum. Í Nuuk búa um 15 þúsund manns og aðalatvinna eru fiskveiðar og þjónustustörf. Umhverfið er mótað af því að byggt er beint ofan á klappir, enginn jarðvegur er til að rækta í eða grafa niður lagnir. Heilbrigðiskerfið er mjög háð samgöngum og skipulag tekur mið af ferðum milli staða þar sem þyrlur eru oft einu farartækin.