Lyfjaframleiðsla og listsýning
Farið var úr húsi á tveimur síðustu fundum janúarmánaðar.
Fundurinn 19. janúar var haldinn í húsakynnum Actavis hf. Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. Unnur Björgvinsdóttir lyfjafræðingur hjá Actavis og félagi í klúbbnum tók á móti gestum ásamt Guðlaugu Rakel formanni starfsþjónustunefndar en fundurinn var í umsjón nefndarinnar. Fyrirtækið bauð upp á morgunverð og kynnti síðan Benedikt Sigurðsson kynningarstjóri fyrirtækið.
Margrét Halldórsdóttir hélt 3ja mínútna erindi og talaði um mat og minningar tengdar honum. Hún kom víða við og nefndi m.a. sveitamatinn í æsku í Reykholtsdalnum, jólahefðir og upplifun af matarhefðum á ferðalögum á Spáni.
Fundurinn þann 26. janúar var í umsjón menningarmálanefndar þar sem Málfríður Klara Kristiansen er formaður. Guðjón Magnússon hélt 3ja mínútna erindi og rifjaði upp matarvenjur við Breiðafjörð þar sem hann var drengur í sveit. Þetta var fyrir tíma rafmagnsins og geymsla á mat var með gamla laginu, í súr og salti.
Farið var í heimsókn í Gerðarsafn þar sem Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður safnsins og fyrrum félagi í Borgum leiðsagði um sýninguna : Sæborgin, kynjaverur og ókindur, þar sem listsköpun og tækni mætast í afar fjölbreyttum verkum.