Fréttir

9.6.2015

Ráðgáta og ráðstefnur

Forseti setti fund 4. júní og sagði frá stofnun nýs Rótarýklúbbs í Garðabæ. Að því búnu var komið að inntöku Guðrúnar Eyjólfsdóttur í klúbbinn á nýjan leik, en hún var félagi í Borgum á upphafsárunum.

 

Ásthildur Bernharðsdóttir sagði frá ferð sinni norður í land fyrir nokkrum árum og þeirri þörf sinni að fá sér lúr undir berum himni endrum og sinnum. Eftir einn slíkan yndisblund á milli þúfna á Holtavörðurheiði hurfu gleraugu hennar með öllu. Það var sama hvað mikið hún leitaði á milli þúfnanna, sem allar virtust eins og hversu oft hún fór upp á heiðina, gleraugun hafa enn ekki fundist.

 

Fundurinn var í umsjá Ferðanefndar Ísland og kynnti Ágúst Guðmundsson fyrirlesara dagsins, Marín Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra viðburðadeildar fyrirtækisins CP-Reykjavík. Hún sagði frá helstu viðfangsefnum fyrirtækisins þar sem starfa 15 manns. Ráðstefnur, hvataferðir, árshátíðir, óvissuferðir, tónleikar og  veislur alls konar eru meðal verkefna. Hún sagði viðskiptavinina vera bæði erlenda og innlenda, en aðalvertíðin er frá hausti fram á vor og svo er rólegra yfir hásumarið.

 

Félagar fóru með fjórprófið og forseti sleit fundi.