Upp og niður á lífsleiðinni
Fundur 5. mars, 29. fundur á starfsárinu.
Forseti setti fund 5. mars Að loknum tilkynningum flutti Sverrir Arngrímsson þriggja mínútna erindi. Hann renndi í gegnum nokkur svið sem hann hefði getað gert að umræðuefni. Sverrir sýndi myndir af hugsanlegum viðfangsefnum, en greindi jafnframt frá því að hann teldi sum þeirra of umfangsmikil, en áhuga skorti fyrir öðrum. Hann hefði því ákveðið að tala ekki um neitt af þessu og þannig runnu þrjár mínúturnar út.
Gunnar Sigurjónsson var ræðumaður dagsins og talaði um breytingaskeið karla. Einkenni sagði hann að væru meðal annars aukið fituhlutfall í líkamanum, rýrari vöðvar og minni geta. Hann lýsti síðan í bundnu og óbundnu máli lífsferli þar sem gengur á ýmsu og hlutir fara upp og niður, mismikið eftir aldursskeiðum. Gunnar ráðlagði meðal annars lýsi, vítamín, álagsþjálfun, hreyfingu og hvíld, allt í hæfilegum skömmtum.