Fréttir

5.5.2015

Sauðburður og félagsleg nýsköpun

Fundur 30. apríl, 36. fundur á starfsárinu og nr. 665 frá stofnun klúbbsins. Forseti setti fund og þau Gottfreð Árnason og Svava Bernharðsdóttir sögðu frá heimsóknum í aðra klúbba, það er í Árbæ, Mosfellsbæ og á Hawai.

 

Kristján Guðjónsson var með þriggja mínutna erindi og sagði frá því er hann var sem drengur sendur í sveit norður á Strandir. Maturinn var honum ofarlega í huga og sigin grásleppa, graðhestaskyr, selkjöt og pysja komu við sögu. Endalaust bakkelsi bjargaði miklu og síðu nærbuxurnar voru þarfaþing. Nú rúmlega 50 árum síðar fer Kristján á hverju vori í sauðburðinn á Broddanesi.

 

Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir kynnti ræðumann dagsins Ingu Auðbjörgu Kristjánsdóttur, verkefnastjóra í Hinu húsinu. Hún starfar einnig í skátunum og er athafnastjóri Siðmenntar. Hún sagði frá námi sínu í Hollandi þar sem hún lærði að vinna með fólki við að breyta heiminum og sagði að plánetan okkar væri á margan hátt komin að þolmörkum.  Inga Auðbjörg sagði að félagslegir frumkvöðlar litu á vandamál sem tækifæri og minnt á að 9. maí stendur Hitt húsið fyrir smástefnunni Peran 2015 þar sem ungir frumkvöðlar fjalla um félagslega nýsköpun.