Fréttir

5.6.2008

Klúbbfélagar á gangi við Kópavogslæk

Félagar í Rótaýklúbbnum Borgum tóku daginn óvenju snemma, fundardag í lok maí sl., þar sem mæting var kl. 07:00 í stað kl. 07:45. Í blíðskaparveðri var lagt af stað frá fundarstað okkar í Skátaheimilinu í menningar- og fræðslugöngu um hluta Kópavogsdalsins undir leiðsögn Friðriks Baldurssonar garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar. Félagar fengu m.a. upplýsingar um trjáreitina sem tengjast gömlu sumarhúsabyggðinni í dalnum og hlíðinni, eldri staðarnöfn og kynningu á ýmsum framkvæmdaþáttum.

Á meðfylgjandi mynd er verið að lesa um hörmulegt slys sem varð 1. mars 1874 í Kópavogslæknum sem var í þá tíð vatnsmeiri og óbrúuð. Í slysinu drukknuðu tvö systkini en eitt komst af við illan leik. Séra Matthías Jochumsson orti í tilefni af þessu kvæðabálkinn Börnin frá Hvammkoti en hann var á þessum tíma ritstjóri Þjóðólfs. Hér að neðan fylgja tvær ljóðlínur:

Dauðinn er lækur, en lífið er strá,
skjálfandi starir það straumfallið á.

Í framhaldi af göngunni var hefðbundinn morgunmatur og stuttur fundur. Félagar í Borgum stefna að einni göngu á ári í Kópavogi.

Mynd: Marteinn Sigurgeirsson.