Aðgengi að fjölmiðlum - hvar eru konurnar?
Fundur í Rótarýklúbbnum Borgum þann 15. september var í umsjón
Kynningarnefndar en formaður þar er Margrét Kr. Gunnarsdóttir. Marteinn Sigurgeirsson kynnti fyrirlesara fundarins, Steinunni Stefánsdóttur, aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins en erindi hennar bar heitið: Hvar eru konurnar? Steinunn fjallaði um hlut kynjanna í fjölmiðlun og er fjölmiðlaheimurinn mjög kynskiptur. Mjög hallar á konur þegar gerð er athugun á hve oft rætt er við konur og karla í fréttum.
Hún velti upp ýmsum tilgátum um ástæður þessa, s.s. fréttavali, meinta tregðu
kvenna til að veita viðtöl og þá skoðun að konur séu erfiðari viðmælendur en
karlar og tregari til að gefa afdráttarlausar yfirlýsingar sem líklegar eru til
að vekja athygli. Steinunn benti á að fjölmiðlar eru vara á markaði. Málefnaleg umræða sé síður talin selja en slagorðaumræðan. Hefð virðist ráða miklu í vali viðmælenda þar sem sömu viðmælendur eru endurtekið kallaðir til að tjá sig um tiltekin málefni. Karlar eru yfirleitt í meirihluta á fréttastofum og fylgja gjarnan ríkjandi hefð við mat á fréttum og vinnslu efnis. Öðru hverju er gert átak t.d. hjá Fréttablaðinu til að reyna að jafna stöðu kynjanna en málin hafa
tilhneigingu til að falla aftur í sama farið þegar frá líður. Steinunn taldi að
starfsmenn fjölmiðla yrðu sjálfir að breyta vinnubrögðum sínum til að jafna
hlutföllin en hjólförin eru djúp og erfitt að komast upp úr þeim. Fram kom að
allir ritstjórar fréttamiðla hér á landi eru karlmenn en konur eru gjarnan í
hópi millistjórnenda. Fjörugar umræður urðu um erindi Steinunnar og komust
færri að en vildu.
Ásta Þórarinsdóttir sagði frá minnisverðri máltíð sem var sviðaveisla íslenskra námsmanna í Bergen á áttunda áratugnum. Komst hún að þeirri niðurstöðu að norskt fé með hala væri hreint ekki sambærilegt íslensku fé með dindil.