Fréttir

4.2.2015

Birmingham og Gínea

Fundur 29. janúar. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir flutti þriggja mínútna erindi og sagði frá því þegar hún stóð í pontu á Evrópufundi hjúkrunarfræðinga í Birmingham. Ekki er að orðlengja það að allt gekk á afturfótunum. Dimmt var í salnum, hún náði hvorki sambandi við fundarstjóra né fundargesti, skildi ekki spurningar fyrirspyrjenda og endaði með því að draga ræðustólinn með sér er hún gekk til sætis. Þá varð til máltækið "þetta verður aldrei verra en í Birmingham".


Sigrún Grendal Magnúsdóttir, talmeinafræðingur og afródansari, flutti fyrirlestur um sína Gíneu. Sagði hún frá dvöl sinni í landinu í um tvo mánuði á hverju ári um 15 ára skeið. Hún sagðist hafa verið Afríkusjúk frá því að hún var lítil stelpa og á endanum hefði dansáhuginn leitt hana til Gíneu. Menningin væri merkileg og tónlistin Gíneubúum eins og fornbókmenntirnar fyrir okkur. Hún sagðist safna auði í hjartað með þessum ferðum, en hugsanlega endaði hún sem fátækt gamalmenni.

 Félagar fóru að lokum með fjórprófið og forseti sleit fundi.