Fréttir
Ferð í Búrfellsgjá
Fararstjóri Guðjón Magnússon
Farin var gönguferð í Búrfellsgjá í Heiðmörk kl.17.00 þann dag. Um var að ræða sannkallaða fjölskylduferð þar sem um 60 manns á öllum aldri gengu saman í einstöku blíðviðri. Guðjón Magnússon leiðsögumaður og klúbbfélagi okkar stýrði göngunni. Hann upplýsti göngumenn um jarðfræði svæðisins og vatnsbúskap. Búrfellið sem við gengum að og sum uppá er eldstöð með fallegri og heillegri hrauntröð, Búrfellsgjá, sem er um 3,5 km löng. Frá Búrfelli hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands í dag. Innan svæðisins eru fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Allir skiluðu sér heilir til baka eftir tveggja tíma gæðastund í íslenskri náttúru.