Fréttir
Hrósað og hugsað um styrkleika
Forseti bauð sérstaklega velkomna tíu góða gesti úr nýjum klúbbi í Garðabæ, Rótarýklúbbnum Hofi, á fund 18. júní.
Birna Bjarnadóttir flutti þriggja mínútna erindi og rakti dæmi sem styður þá speki að aldrei skuli loka neinum dyrum svo harkalega á eftir sér að þú getir ekki opnað þær aftur. Þá talaði hún um Rótarýsjóðinn, reglur hans og sagði frá því að framlög klúbba í sjóðinn væru líklega í í sögulegu lágmarki. Borgir stæðu þó fyrir sínu.
Fundurinn var í umsjón rit- og skjalavörslunefndar og kynnti Anna Sigríður Einarsdóttir frummælanda dagsins, Sigríði Huldu Jónsdóttur, sem rekur fyrirtækið SHJ ráðgjöf. Hún talaði meðal annars um eftirsótta færniþætti í atvinnulífi 21. aldar og nefndi sérstaklega sköpun, sveigjanleika og samskiptahæfni. Ein af spurningunum sem hún velti upp var hvort það væri gaman að vera þú og hvatti fólk til að hrósa, hugsa um styrkleika og hífa upp seglin.